„Úr litlu að moða“ fyrir kosningarnar

Eva Marín segir Reykavíkurborg vera í algjörri sérstöðu þegar kemur …
Eva Marín segir Reykavíkurborg vera í algjörri sérstöðu þegar kemur að sveitarstjórnarkosningum enda langstærsta sveitarfélagið.

„Maður hefur oft verið meira var við umræður og framsetningu í fjölmiðlum um sveitarstjórnarkosningarnar. Það eru fáar kannanir sem hafa komið fram og ekkert eitt mál hefur náð hertaka umræðuna. Það er í raun ekki úr miklu að moða,“ segir Eva Marín Hlynsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. 

Nokkrir frambjóðendur og álitsgjafar hafa lýst skoðunum sínum um að lítið hafi verið, og sé, fjallað um sveitarstjórnarkosningarnar sem fara munu fram á laugardaginn eftir tæplega tvær vikur. 

Lítill munur á framboðunum

Eva telur að fókusinn verði eftir sem áður á leikskólamál og skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu, enda séu það þau mál sem hafa verið hvað mest rædd á kjörtímabilinu. 

„En það sem vekur kannski enn meiri athygli er hversu lítill munur virðist vera á milli framboðanna og hvernig þau nálgast þessi viðfangsefni,“ segir Eva Marín. 

Hún segir erfiðara en áður að draga skýrar línur á milli framboðanna og finna eitthvað sem er mjög mikið ólíkt með hvernig þau vilja gera hlutina. Til að mynda hafi munurinn á afstöðu framboðanna á höfuðborgarsvæðinu til þéttingar byggðar verið töluvert skýrari fyrir síðustu kosningar. 

„Hann virðist vera minni núna, miðað við hvernig framboðin reyna að markaðssetja sig.“

Eva Marín Hlynsdóttir, prófessor við stjórnmáladeild Háskóla Íslands.
Eva Marín Hlynsdóttir, prófessor við stjórnmáladeild Háskóla Íslands.

Reykjavík í sérstöðu

Hún segir Reykjavík hafa sérstöðu í umræðunni sem langstærsta sveitarfélagið og það sé í sjálfu sér ekki óeðlilegt. 

„Það hefur þó verið óvenjulítið fjallað um sveitarstjórnarkosningarnar, miðað við það að það er bara hálfur mánuður í kosningarnar,“ segir Eva.

Enn hafa ekki allir flokkar í framboði til borgarstjórnar kynnt stefnuskrár sínar og ekkert kosningamál hefur átt umræðuna frekar en annað. 

Landsmálin og stríð dragi til sín athygli

Eva bendir á, spurð hvað geti valdið þessari ládeyðu, að sveitarstjórnarkosningarnar séu hálfum mánuði fyrr á ferðinni en við erum vön. 

„Það tekur alltaf ákveðinn tíma að keyra sig í gang í kosningabaráttuna. Mögulega erum við bara ekki búin að ná taktinum. Annað sem nefnt hefur verið er að landsmálin hafi skyggt á sveitarstjórnarmálin en svo er auðvitað líka stríð í Evrópu, sem hefur tekið til sín umfjöllun og sviðsljós. “

Þá sé það gömul saga og ný að í sveitarstjórnarmálunum hafi ekki verið jafn skýr hugmyndafræðileg átök og í landsmálunum. 

„Í sveitarstjórnarmálum snýst þetta svolítið um að leysa verkefni og allir eru sammála um að vilja hafa góða leikskóla. Það er erfiðara að vera með mjög skýran hugmyndafræðilegan ágreining.“

Kosningamálin eru staðbundin og átökin sömuleiðis. „Þó að það fari ekki mjög hátt geta verið staðbundin átök og mikið líf í pólitík víða um landið,“ segir Eva spurð út í mögulegan mun á upplifun fólks um sveitarstjórnarkosningarnar eftir búsetu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert