„Ótrúlega lágkúrulegt hjá borgarfulltrúanum“

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Reykjavíkurborgar.
Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Reykjavíkurborgar. mbl.is/RAX

„Þið eruð með allt niður um ykkur og fram undan eru lántökur og lántökur,“ sagði Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins á borgarstjórnarfundi í dag.

Hún gagnrýndi meirihlutann og ársreikning borgarinnar sem var samþykktur í dag.

Meirihlutinn talaði um að rekstur borgarinnar hafi verið betri en búist var við, þrátt fyrir heimsfaraldurinn, á meðan fulltrúar í minnihlutanum gagnrýndu bókhaldið.

„Ekki vera að reyna að segja borgarbúum að borgarsjóður standi sterkur. Það er ekki satt. Auðvitað á borgin eignir en við erum ekki að fara að selja sundlaug upp í skuld,“ sagði Kolbrún sem var ekki sammála meirihlutanum í borginni um að borgarsjóður stæði vel og sagði að stjórnmálamenn þyrftu að vera heiðarlegir.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins. Eggert Jóhannesson

Skuldir á hvern íbúa lægstar

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði fjárhagslega stöðu borgarinnar sterka miðað við önnur sveitarfélög.

Í Reykjavík væru skuldir á hvern íbúa lægstar, af öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

„Mér finnst það ótrúlega lágkúrulegt hjá borgarfulltrúanum Kolbrúnu Baldursdóttur að halda því fram að við sem erum í meirihlutanum séum óheiðarleg,“ sagði Hjálmar.

Matsbreyting hjá Félagsbústöðum taldi mest

Í tilkynningu frá borginni kom fram að á árinu 2021 væri rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar jákvæð um 23,4 milljarða króna en áætlanir gerðu ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 3,3 milljarða.

„Betri niðurstaða skýrist einkum af matsbreytingu fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum 19,4 ma.kr. umfram áætlun, áhrifum af gangvirðisbreytingum innbyggðra afleiða í raforkusölusamningum Orkuveitu Reykjavíkur sem námu 6,6 ma.kr. á árinu og auknum rekstrartekjum,“ sagði í tilkynningunni.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins,
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, Skjáskot

Óeðlilegar bréfaskriftir

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, og Eyþór Laxdal Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndu ársreikninginn og töluðu um óeðlilegar aðferðir.

Vigdís gagnrýndi matsbreytingu fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum og taldi það óeðlilegt að borgin væri í bréfaskriftum við ESA, eftirlitsaðila EFTA, sem væri að rannsaka borgina vegna breytingarinnar.

Eyþór Laxdal Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Eyþór Laxdal Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ríkisstyrkir til almennings farið í útsvar

Eyþór gagnrýndi að á meðan tekjur annarra hefðu minnkað á tímum faraldursins hafi tekjur borgarinnar aukist um sextán milljarða króna. Taldi hann óeðlilegt að samhliða öllum styrkjum ríkisins til almennings vegna faraldursins hafi borgin samt tekið hámarks leyfilegt útsvar.

Hann sagði að rekstrarvandi borgarinnar hafi verið til staðar fyrir tíma Covid-19 og gagnrýndi borgarstjóra og meirihlutann í lok ræðu sinnar:

„Stundum þegar illa gengur benda menn á eitthvað annað. Það hefur verið sagt og það á við hér.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert