Grátlegt að selja innviði

Oddvitar Bæjarlistans, Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar mættu í Dagmál …
Oddvitar Bæjarlistans, Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar mættu í Dagmál og ræddu málefni Hafnafjarðar. Ágúst Óliver Erlingsson

„Það er taprekstur á bænum. Við erum að safna skuldum og bregðumst við því með því að selja eignir til að rétta reksturinn af. Það er grátlegt að selja innviði eins og veiturnar,“ segir Davíð Arnar Stefánsson, oddviti Vinstri grænna í Hafnafirði og vísar til sölu Hafnafjarðarbæjar á HS Veitum.

Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins og núverandi bæjarstjóri var á öndverðu meiði enda telur hún að rekstur HS Veitna eigi enga samleið með rekstri sveitarfélagsins og að þeir fjármunir sem fengust með sölunni hafi verið í framkvæmdir.

Úr miklu að moða

Í Hafnafirði er hugmyndafræðilegur ágreiningur áþreifanlegur í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, þar standa kjósendum til boða átta framboðslistar.

Rósa og Davíð Arnar mættu í fyrri pallborðsumræður Dagmála fyrir Hafnafjörð, ásamt Guðmundi Árna Stefánssyni, oddvita Samfylkingarinanr og Sigurði P. Stefánssyni, oddvita Bæjarlistans.

Davíð og Guðmundur voru sammála um kominn væri tími á breytingar en Rósa lagði áherslu á það að bærinn blómstraði undir núverandi stjórn og að almenn ánægja væri í sveitarfélaginu.

Niðurskurður nauðsyn eða óþarfi?

Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er ekki góð að mati Sigurðar. „Það er alvarlegt þegar hreint veltufé er í mínus. Reksturinn hefur ekkert upp í greiðslu fjárfestinga og skuldbindinga.“ Hagræðing og niðurskurður er að hans mati nauðsyn.

„Sjálfstæðismenn lofa öllum allt eins og engin sé framtíðin,“ segir Guðmundur. Hann bendir á að komin sé krafa um mannvirki, einkum reiðhöll fyrir Sörla og íþróttahús fyrir Hauka, sem séu afar kostnaðarsamar framkvæmdir.

Rósa heldur því fram að vandi Hafnafjarðar sé fyrst og fremst skuldavandi, en núverandi meirihluti hafi staðið í aðhaldsaðgerðum sem séu að skila góðum árangri. „Við höfum unnið út frá því að nota eigið fé og forðast skuldasöfnun.“

Hún kveðst stolt af því þjónustustigi sem Hafnafjarðarbær býður íbúum sínum, einkum þjónustu gagnvart fötluðum. „Við erum með flesta NPA samninga á landinu og það hafa risið þrír nýir búsetukjarnar.“

Aðspurð telur hún ekki ástæðu til þess að ráðast í niðurskurð, enda sé núverandi meirihluta að takast að ná tökum á fjárhagsstöðu þess og þvinga hana í rétta átt.

Glansmynd Sjálfstæðisflokksins

Skipulagsmál voru hitamál í þættinum, en Guðmundur lýsti yfir miklum áhyggjum af því að búið sé að teikna upp glansmynd af fjölgun íbúa en þá þurfi innviðir að fylgja, raunin sé þó sú að íbúum hafi fækkað í Hafnafirði.

Rósa þvertók fyrir það að um glansmynd væri að ræða og benti á að verktakar væru byrjaðir að vinna að því að byggja upp íbúðir.

Fækkun íbúa má rekja til kæru vegna Hamraneslínu að mati Rósu, sem hafi haldið uppbyggingu í gíslingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert