„Það er eins og það búi tvær þjóðir í Reykjavík,“ segir Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík. Vísar hann þá til íbúa úthverfanna annars vegar og íbúa vestan Elliðaáa hins vegar, hann kveðst finna fyrir mikilli reiði meðal íbúa úthverfanna sem upplifi sig afskipta.
Framsóknarflokkurinn hefur á stefnuskrá sinni að reistar verði þrjú þúsund íbúðir á ári í Reykjavík. Ráðast þarf rakleitt í uppbyggingu á Keldnalandinu, að mati Einars sem furðar sig jafnframt á því að meirihlutinn hafi ekki byrjað skipulagsvinnu, enda sé slík vinna tímafrek. Þá talar Einar fyrir uppbyggingu í Úlfarsárdal og Örfirisey, þéttingu byggða á stöðum sem geti tekið við börnum og nefnir þar Grafarvog og Breiðholt.
„Á Kjalarnesi vantar börn í skólann, skólinn tekur 200 börn en þau eru komin niður fyrir 100.“ Meirihlutinn hefur staðið í vegi uppbyggingar á Kjalarnesi en á sama tíma fær Kjalarnes ekki þjónustu sökum fárra íbúa, að sögn Einars. „Ég held að það væri tilvalið að byggja fjölbreytta byggð á Kjalarnesi.“
Einar hefur talað fyrir því að börn fái frítt í strætisvagna borgarinnar og frítt í sund auk þess sem hann vill tvöfalda frístundastyrkinn. Þessar aðgerðir gætu kostað hátt í milljarð íslenskra króna en Einar bendir á að það sé á pari við kostnaðinn sem hlaust af byggingu Braggans í Nauthólsvík.
„Ég held að það þurfi að forgangsraða upp á nýtt í borginni.“ Hann telur að það séu mörg tækifæri til að draga úr kostnaði borgarstjórnar, án þess að draga úr þjónustu við íbúa. „Þegar pólitísk forysta hefur ráðið ríkjum um svona langt skeið kemur það í veg fyrir að teknar séu erfiðar ákvarðanir í rekstrinum.“
„Nýja Reykjavík, sem þessi meirihluti er alltaf að kynna, hún er mikið vestan Elliðaáa og ný hverfi og uppbygging er þar, þétting byggðar. Það þekkja allir þessa stöðu að meirihlutinn einblínir á vestari hluta borgarinnar og það býr til ákveðin átök og menn þurfa að sætta þau sjónarmið.“
Hann telur að þar hafi borgina í raun skort forystu og úr því vill Einar bæta.
„Maður heyrir innan úr kerfinu að það vanti forystu inn í málaflokkana og við viljum efla hana.“ Spurður að því hvort borgarstjórinn ráði ekki því sem hann vilji jánkar Einar því. „Jú, kannski. En það er þá kannski um að kenna forystuleysi hans.“
Einar kveðst víða hafa farið síðustu daga og heyrt kvartanir um bæði seinagang og hálfkák. Það kalli ljóslega á forystu og það eigi við í stóru sem smáu, eins og borgarbúar hafi kynnst í vetur þegar grunnþjónusta eins og snjómokstur virtist borginni ofviða. Hið sama eigi við um húsnæðiskreppuna.
En vilji hann veita þá forystu, sem hann telur borgina vanta, vill hann verða borgarstjóri?
„Annars væri ég ekki að bjóða mig fram, ég treysti mér til þess. Það eru kjósendur sem ráða því hvaða styrk Framsókn hefur til þess að setja fram einhverjar kröfur í þeim efnum.
Ég er tilbúinn til að veita pólitíska forystu fyrir mjög mikilvægum breytingum í borginni, af því að það er svo sannarlega kominn tími til þess að breyta í Reykjavík. Kjósendur vita það, að ef þessi meirihluti fellur ekki og heldur áfram, þá þekkja þeir alveg stefnuna. Það verður sama stefnan næstu fjögur árin. – En ef menn vilja breytingar í sínu umhverfi, þá er best að kjósa Framsókn. Við erum á miðjunni, við erum tilbúin að vinna með öðrum flokkum og við erum til í slaginn.“