„Best að láta staðar numið“

Horft yfir Selfoss, stærsta bæinn í sveitarfélaginu Árborg.
Horft yfir Selfoss, stærsta bæinn í sveitarfélaginu Árborg. mbl.is/Sigurður Bogi

Formaður frístunda- og menningarnefndar Árborgar sagði sig úr Framsóknarflokknum í marsmánuði og segir ástæðuna þá að þau vinnubrögð sem stjórn og forsvarmenn innan flokksins hafi viðhaft í Árborg hafi ekki hugnast henni. Eins og greint hefur verið frá sagði forseti bæjarstjórnar Árborgar sig úr flokknum nýverið.

„Ég brenn fyrir að bæta mitt samfélag en starfið er að mestu sjálfboðavinna sem þarf að vera gefandi félagslega. Ef það er ekki til staðar þá er best að láta staðar numið,“ segir Guðbjörg Jónsdóttir, formaður menningarnefndar Árborgar.

Hún var í þriðja sæti lista Framsóknar fyrir síðustu kosningar, árið 2018. Þá var Helgi Sigurður Haraldsson forseti bæjarstjórnar í fyrsta sæti listans, rétt eins og í kosningunum árið 2014 og 2010.

Guðbjörg segir að úrsagnir þeirra hafi ekki verið samantekin ráð heldur hafi hún einfaldlega fylgt sinni eigin sannfæringu og hann sinni.

Helgi Sigurður sagði í grein á sunnlenska.is að honum hafi verið tjáð að nærveru hans væri ekki óskað til að leiða lista flokksins í Árborg. Hann væri ekki sölu­væn vara og væri tími til kom­inn að skipta hon­um út, fyr­ir yngra og fersk­ara fólk.

Fólkið sem býður sig fram fyrir Framsóknarflokkinn í Árborg. Andri …
Fólkið sem býður sig fram fyrir Framsóknarflokkinn í Árborg. Andri er hér fremstur á myndinni. Ljósmynd/Framsóknarflokkurinn

Fylgið hefur dregist saman

Fylgi Framsóknarflokksins hefur dalað í Áborg síðan árið 2010. Undir forystu Helga fékk flokkurinn 19,6% fylgi árið 2010 en 14,9% í kosningum 2014 og 2018.

mbl.is sló á þráðinn hjá Arnari Frey Ólafssyni sem leiðir lista Framsóknar. Hann segist ekki hafa áhyggjur af því að úrsögn Helga hafi áhrif á gengi flokksins í sveitarstjórnarkosningum sem fram fara um næstu helgi.

Nýr listi sem lagður er fram á eigin verðleikum

„Í sjálfu sér ekki. Þetta er nýr glæsilegur listi sem er lagður fram á sínum eigin verðleikum. Það er ómögulegt að sjá hvort þetta hafi einhver áhrif á það sem boðið er fram núna en ég held ekki,“ segir Arnar Freyr.

Aðspurður segir hann þau sem séu á listanum núna ekki hafa haft neitt með umrætt mál að gera og tengist því í raun ekki neitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert