Forseti bæjarstjórnar segir sig úr Framsókn

Helgi Sigurður Haraldsson, forseti bæjarstjórnar í Árborg.
Helgi Sigurður Haraldsson, forseti bæjarstjórnar í Árborg. Ljósmynd/Helgi Sigurður Haraldsson

Helga Sigurði Haraldssyni, forseti bæjarstjórnar í Árborg, var tjáð að nærveru hans væri ekki óskað til að leiða lista Framsóknar í vor. Hann væri ekki söluvæn vara og væri tími til kominn að skipta honum út, fyrir yngra og ferskara fólk.

Helgi hefur ákveðið að segja sig úr flokknum vegna aðferða flokksfélaga hans til að losa sig við hann. Þetta tilkynnti hann í aðsendri grein hjá sunnlenska.is

Helgi hefur verið oddviti Framsóknar í Árborg í tólf ár og bauð sig fram í fyrsta sæti listans í lokuðu prófkjöri flokksins. Þá tók við það sem Helgi segir vera einhverja undarlegustu atburðarrás sem hann hefur upplifað í stjórnmálum.

 Væri ekki söluvæn vara

„Á síðustu stundu var prófkjör flokksins blásið af og skýringin sem var gefin var að þátttakan hefði verið léleg. Þá var þeim sem þar ætluðu að taka þátt raðað í efstu sæti listans og það borið undir frambjóðendur og þeir samþykktu þá tilhögun. En næstu daga var slegið í og úr af stjórn félagsins varðandi framboðsmál flokksins og á endanum var mér tilkynnt af „sendiboða“ félagsins og flokksins að nærveru minnar væri ekki óskað til að leiða listann og framboðið í vor. „Ný“ Framsókn þyrfti nýtt fólk í framboð og undirritaður væri ekki söluvæn vara og tími til kominn að skipta honum út, fyrir yngra og ferskara fólk,“ að sögn Helga.

Helgi tilkynnti þá að hann væri hættur í sveitarstjórnarpólitík af persónulegum og öðrum ástæðum.

„Vinnubrögðin sem viðhöfð voru til að „losna“ við mig komu mér á óvart og ollu mér miklum vonbrigðum. Mínir flokksfélagar, fólkið sem ég treysti og er búin að vinna með síðustu ár gat ekki komið heiðarlega fram við mig, það er verulega sárt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert