Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir stefnu meirihlutans í Reykjavík hafa ýtt undir hækkun fasteignaverðs. Hún ýti undir ójöfnuð og komi sér sérstaklega illa fyrir ungmenni og lágtekjufólk.
„Hagkvæmar íbúðir verða ekki byggðar á þéttingarreitum,“ segir Sigurður, þar sem ódýrara sé að byggja húsnæði á óbyggðum lóðum. „Ákallið frá félagsmönnum okkar er mjög skýrt um að það vanti lóðir og byggingarsvæði. Borgin á nóg af lóðum sem hún vill ekki byggja á.“
Með hækkandi fasteignaverði fær borgin meiri fasteignaskatt, en hann er annar stærsti tekjustofn sveitarfélaga.
Frá 2016 til 2020 hefur álagður fasteignaskattur hækkað úr 15 milljörðum í tæplega 22,5 milljarða á ári. Þar með hefur hækkun húsnæðisverðs fært borginni rúma 18 milljarða aukalega á tímabilinu.
Þétting byggðar kemur því best út fyrir þá tekjuhæstu og borgina sjálfa en verst fyrir tekjulága, ungmenni og fólk á leigumarkaði.