Framboð Birgittu stendur

Eva Bryndís Helgadóttir formaður yfirkjörstjórnar.
Eva Bryndís Helgadóttir formaður yfirkjörstjórnar. Ljósmynd/Aðsend

Að sögn Evu Bryndísar Helgadóttur, formanns yfirkjörstjórnar, er framboð Birgittu Jónsdóttur, fyrrverandi þingmanns Pírata gilt og listanum verður ekki breytt þrátt fyrir meinta fölsun.

Birgitta greindi frá því í facebook-færslu fyrr í dag að undirskrift hennar hefði verið fölsuð á skjali sem varðaði heimild til að setja nafn hennar á lista E-framboðs til borgarstjórnar.

Eva segir að tímafresturinn til að breyta listum sé liðinn og búið sé að úrskurða framboðið gilt. „Þá er í rauninni ekki hægt að breyta neinum lista eða breyta neinu framboði. Þá er bara búið að úrskurða framboðið gilt og það stendur.“

Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata. mbl.is/Árni Sæberg

Til að frambjóðandi geti afturkallað samþykki sitt til framboðs verður hann, að sögn Evu, að gera það áður en að frestur til að skila framboðum rennur út. Meira að segja sé í lögunum ákvæði um að ef frambjóðandi deyr að þá verði hann samt sem áður á atkvæðaseðlinum nema því verði komið við.

Rannsaki ekki hvort fölsun hafi átt sér stað

 „Það er ekki okkar hlutverk að finna út eða rannsaka hvað gerðist þarna eða kveða upp einhverja dóma um hvað gerðist, hvort það hafi verið fölsun eða ekki,“ segir Eva.

Yfirkjörstjórnin mun funda á morgun og gerir Eva ráð fyrir að málið verði tilkynnt til bærra yfirvalda þar sem það verður rannsakað og meðhöndlað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert