Umræða um breytingar í Reykjavík er áhugaverð þar sem borgin er nú þegar í miklum breytingafasa sem íbúar munu m.a. verða varir við á næsta kjörtímabili, segir Dagur B. Eggertsson borgarastjóri í oddvitaumræðu Dagmála fyrir Reykjavík. Hann segir úthald og seiglu nauðsynleg til að ná fram veigamiklum breytingum en tímabil óvissu gæti tekið við ef ekki er skýr forysta í borginni.
Aðrir efa að hann sé maðurinn til að leiða breytingar eftir áratugaferil í borgarstjórn. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir fögur fyrirheit ekki af skornum skammti hjá meirihlutanum þótt kosningaloforðum þeirra sé sjaldan fylgt eftir. Lengi hafa sömu öfl stýrt borginni sem hafi komið niður á rekstri hennar og þörf sé á breytingum.
Ófremdarástand á húsnæðismarkaði, snjómokstur í borginni, stafræn þróun, mygla í Fossvogsskóla og mæting á borgarstjórnarfundi voru meðal þeirra málefna sem voru til umræðu þegar oddvitar framboðslista í Reykjavík tókust á í oddvitaumræðu Dagmála.
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, tekur undir orð Hildar um að nauðsynlegt sé að bæta þjónustu við íbúa, mikilvægt sé að ferskir vindar fái að blása. Þá lagði hann mikla áherslu á mikilvægi þess að draga úr hatrömmum átökum milli flokka í borgarstjórn og skautaðri umræðu.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalista, gerði stéttskiptingu í íslensku samfélagi að umtalsefni og skaut einnig föstum skotum að meirihlutanum sem hún sagði ekki vera vinstrisinnaðan. Taldi hún veru Viðreisnar skipta þar sköpum. „Ég sé ekkert vinstri við þennan meirihluta.“
Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri-grænna, kvaðst ekki vera sammála þessum ummælum þótt meirihlutinn hafi ekki getað fallist á tillögur Sósíalista í ýmsum málum, til að mynda húsnæðismálum. „Þetta er bara eins og að vera í hjónabandi, þú færð ekki allt sem þú vilt.“ Hún gaf þó í skyn að mikill vilji væri fyrir hendi meðal Vinstri-grænna að vinna með Sósíalistaflokknum enda væru oddvitar flokkanna á sömu línu.
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, tók einnig þátt í þessari umræðu og kvaðst vilja taka þátt í því samstarfi. „Við eigum að vera saman, og Sanna,“ segir Kolbrún og beinir orðum sínum að Líf.
Mæting Hildar á fundi borgarstjórnar hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum en nýlega var vakin athygli á því að hún hefði ekki verið viðstödd slíkan fund frá því í febrúar.
Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata og forseti borgarstjórnar, bendir á að ekki hafi vafist fyrir öðrum borgarfulltrúum að mæta á fundina í miðri kosningabaráttu. „Sem forseti borgarstjórnar verð ég að segja að mér finnst þetta ekki alveg nógu gott.“
Hildur segir gagnrýnina ómaklega, ekki síst vegna þess að hún hafi verið með eitt hæsta mætingarhlutfallið á fundina þegar allt kjörtímabilið er skoðað. Þá segir hún umræðuna endurspegla áherslumun milli meiri- og minnihlutans og gaf í skyn að litlu væri afkastað á fundunum, þeir væru fyrst og fremst umræðuvettvangur.
„Pólitík núverandi meirihlutans hefur falist svolítið í þessu; í löngum fundum þar sem fólk skiptist á að taka til máls og endurtaka hvert annað og það gerist ekki neitt.“
Mygla í húsakynnum Fossvogsskóla og atburðarásin sem henni hefur fylgt hefur verið eins og heit kartafla sem fáir í borgarstjórn vilja kannast við að bera ábyrgð á.
Alexandra Briem segir málið vissulega leiðinlegt en lýsir því jafnframt að borgin hafi brugðist við og vandamálið hafi fyrst og fremst legið í skorti á reglum um hvernig mæla eigi myglu í húsum og hvernig bregðast eigi við slíkum tilfellum.
Hildur gaf lítið fyrir þau svör og sagði foreldra nemenda skólans hafa talað fyrir daufum eyrum í mörg ár áður en borgaryfirvöld tóku málið föstum tökum, sem var þó ekki fyrr en það var orðið að umfjöllunarefni fjölmiðla.
Kastljósinu var síðar beint að borgarstjóranum og viðbrögðum hans en fjölmiðlar komu ítrekað að tómum kofunum þegar óskað var eftir viðtali við hann í tengslum við mygluna í skólanum. Dagur þvertók fyrir þær ásakanir og kvaðst hafa svarað öllum símtölum sem hann fékk.
Þá tók Einar Þorsteinsson til máls en á þeim tíma sem umfjöllun um mygluna í Fossvogsskóla fór sem hæst var hann fréttamaður á Ríkisútvarpinu.
„Ég man eftir því þegar ég var í Kastljósinu að reyna að fá þig [Dag] í viðtal um þetta mál, þá kom Þórdís Lóa [oddviti Viðreisnar] í viðtal og ég saknaði þín þá.“
Mikil hækkun á fasteigna- og leigumarkaði er eitt af þeim stóru málum sem frambjóðendur standa frammi fyrir. Oddvitar flokkanna eru með misjafna sýn á hvernig borgin hefur staðið sig í að koma til móts við íbúa í þeim málum og hvaða lausnir eru skynsamlegar.
Fulltrúar minnihlutans gagnrýndu meirihlutann fyrir að bregðast ekki hraðar við þeirri þróun sem hefur verið uppi. Virtust flestir sammála um mikilvægi þess að hrinda af stað framkvæmdum á þeim lóðum sem búið er að skipuleggja.
Dagur segir Reykjavík eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem hafi tvöfaldað lóðaframboð vegna þeirra aðstæðna sem voru uppi. Eru lóðirnar á þéttingarreitum sem eru tilbúnir.
Ómar Már Jónsson oddviti Miðflokksins leggur til að leiguþaki verði komið á í borginni og því viðhaldið þar til markaðurinn hefur jafnað sig. Almennt kveðst hann þó sammála því að markaðurinn eigi að ráða en í óeðlilegum aðstæðum sem þessum verði að grípa inn í.
Þá vakti Sanna Magdalena jafnframt athygli á því að ekki væri nóg að byggja íbúðir ef ekki væri tekið tillit til þarfa íbúanna og getu þeirra.
„Ef það gengur svona vel hjá meirihlutanum og þau hafa aldrei byggt meira, af hverju eru þá um 900 á biðlista hjá félagsbústöðum, af hverju eru þá 860 í Reykjavík í atvinnuhúsnæði sem hentar ekki til búsetu út af meðal annars of háu leiguverði, af hverju er fólk að greiða 70 prósent af ráðstöfunartekjum í leigu, af hverju býr þá fólk inni hjá öðrum því það kemst ekkert annað, af hverju eru þá fleiri að kaupa íbúð númer tvö og hafa ekki efni á því að kaupa fyrstu íbúð, af hverju eru fyrirtæki að kaupa íbúð númer tvö? Þetta er eignafólk sem er að sópa til sín íbúðum til þess að geta leigt til annarra, til þess að geta hagnast á neyð þeirra, þannig að dæmið gengur ekki upp.“
Til að létta á heimilunum í borginni talaði Hildur fyrir því að fasteignagjöld yrðu fryst út kjörtímabilið.
„Við erum að tala fyrir því að heimilin finna fyrir þessum fasteignahækkunum. Og það er í rauninni þannig í dag að borgin hefur beinlínis hvata af því að halda fasteignaverðinu háu því eftir því sem fasteignamat hækkar og fasteiganverð er hátt þá koma inn meiri tekjur í kassann hjá borginni. Við viljum aftengja þennan hvata.“
Hún segir svigrúm fyrir hendi í fjármálum borgarinnar fyrir slíka aðgerð þar sem næg tækifæri séu til hagræðingar.