Undirskriftarmálið til héraðssaksóknara

Umboðsmenn Bestu borgarinnar.
Umboðsmenn Bestu borgarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Yfirkjörstjórn í Reykjavík hefur vísað undirskriftarmáli E-fram­boðs, Bestu borg­ar­inn­ar, til héraðssaksóknara. Birgitta Jóns­dótt­ir, fyrr­ver­andi alþing­ismaður, er í 24. sæti listans en hún segir undirskrift sína í framboðsgögnum falsaða.

Birgitta og umboðsmenn Bestu borgarinnar voru kallaðir á fund fyrr í dag þar sem farið var yfir málið.

Eva Bryn­dís Helga­dótt­ir, formaður yfir­kjör­stjórn­ar, segir í samtali við mbl.is að niðurstaða fundarins hafi verið sú að yfirkjörstjórn hafi ekki lagaheimild til að taka frambjóðanda af lista á þessu stigi.

„Það er ekki síst vegna þess að í reglugerð ber okkur að vera með fullbúna atkvæðaseðla sjö dögum fyrir kjördag,“ segir Eva en sveitarstjórnarkosningar fara fram eftir þrjá daga.

„Í kjölfarið samþykktum við að vísa málinu til héraðssaksóknara til rannsóknar og meðferðar.“

Birgitta segir sína undirskrift ekki vera á framboðsgögnunum en umboðsmenn listans segjast ekki vita hvað hafi gerst nákvæmlega.

„Þá er komið mál sem þarf að rannsaka og finna út úr,“ segir Eva Bryndís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka