Börn efnaminni fjölskyldna greiði ekki fyrir þjónustuna

Kolbrún Baldursdóttir í Dagmálum.
Kolbrún Baldursdóttir í Dagmálum. mbl.is/Ágúst Ólíver

„Ég held að ég geti sagt að ég sé máladrottningin í borginni og ekki nóg með það, heldur sé ég líka með bestu mætinguna,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík.

Kolbrún mætti í viðtal við Dagmál. Hér má nálgast þáttinn í opinni dagskrá.

Flestöllu vísað frá

Kolbrún hefur verið iðin við að bóka afstöðu sína gagnvart ýmsum málum á vettvangi borgarstjórnar þrátt fyrir að vera eini fulltrúi Flokks fólksins. Spurð hvort það hafi verið til nokkurs segir Kolbrún að hún trúi því að dropinn holi steininn. Hún sé vön að fylgja málum sínum eftir með greinum, segir það hafa skilað sér vel í umræðuna.

Hún segir að málin sem hafi hlotið almennilega afgreiðslu frá henni séu teljandi á fingrum annarrar handar. „Já ég held að það séu kannski fjögur eða fimm mál af hundruðum mála. Þannig að við erum að tala um að kannski 99 prósent eru í rauninni felld eða vísað frá.“

Vill vinna í teymi

Kolbrún segist vonast til þess að geta bætt við sig manni og unnið í teymi á næsta kjörtímabili en næst á eftir henni er Helga Þórðardóttir, kennari á Barnaspítala Hringsins. Helst vill hún þó vinna í teymi í meirihlutasamstarfi. „Ég sé fyrir mér allt mögulegt,“ svarar Kolbrún spurð að því hvers konar meirihlutasamstarf hún sjái fyrir sér. Að allir flokkar sem eru tilbúnir að fallast á áherslumál hennar komi til greina í samstarfi.

Áherslumálin sem um ræðir eru að einbeita sér að fólkinu fyrst – að öllum fjármunum borgarinnar verði forgangsraðað í þágu þjónustu við fólk en dauðir hlutir látnir bíða. „Við viljum til dæmis taka utan um þær fjölskyldur sem eru fátækastar og þau börn sem tilheyra þeim fjölskyldum eru á milli sjö og átta þúsund. Við viljum að þau fái frítt í allt; skólamáltíðir, frístund og hvaðeina. Þetta er fólk sem á ekkert afgangs.“

Annað helsta áherslumál Flokks fólksins fyrir komandi kosningar er útrýming biðlista barna í skólakerfinu. Þar er átt við biðlista til sálfræðinga, talmeinafræðinga og annars fagfólks skólaþjónustunnar.

1.000 bíði eftir sálfræðingum

„Biðlistarnir voru fjögur hundruð börn þegar ég byrjaði í borginni fyrir fjórum árum og eru núna um átján hundruð og eitthvað börn,“ segir Kolbrún og bætir við að yfir þúsund börn bíði bara eftir sálfræðiþjónustu.

Hún segir sérstakt að hlusta á kosningaloforð meirihlutaflokkanna og segir þau kostnaðarsöm miðað við þeirra loforð. „Maður spyr sig: Af hverju gerðu þau ekki neitt af þessu á kjörtímabilinu?“

Flokkur fólksins boðar að fargjöld í strætó verði felld niður, fyrst fyrir öryrkja og eldri borgara. Hún segir það nauðsynlegt þrátt fyirr nokkurn afslátt enda hafi árskortin þeirra hækkað um sextíu prósent. „Þarna er hópur sem á klárlega að fá frítt í strætó.“ Til þess að allir geti fengið frítt í strætó segir Kolbrún að taka þurfi utan um rekstur félagsins.

Bruðlið megi bíða

Kolbrún segir að mikið bruðl og sóun þrífist í rekstri borgarinnar. „Ég vil bíða með hvort heldur sem eru skreytingar torga eða þrengingar gatna eða fegrun borgarinnar. Ég vil taka af þessu – og mér finnst allt í lagi þó að Lækjatorg verði ekki gert upp á morgun með einhverjum geislabaug – og ég vil fá fjármagnið inn í þjónustu við fólkið.

Ég er líka mjög ósátt við alla þessa upphæð sem er búin að fara i ekki bara stafræna umbreytingu heldur verkefni innan stafrænnar umbreytingar sem hefðu bara mátt bíða. Frekar að setja stafrænar lausnir sem virkilega er beðið eftir í forgang.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert