„Þetta er frábær dagur til að kjósa“

Dagur B. Eggertsson kaus í Ráðhúsi Reykjavíkur kl. 9.
Dagur B. Eggertsson kaus í Ráðhúsi Reykjavíkur kl. 9. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgarstjóri segir að úrslit kosninganna í dag muni að mörgu leyti ráðast af kjörsókn, niðurstöðurnar verði líklega nokkuð jafnar. Ef meirihlutinn heldur vill hann halda því samstarfi áfram en ef svo verður ekki þarf að skoða aðra kosti. Sístu kostirnir þar eru að mati borgarstjóra Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur.

 „Ég er bara mjög vel stemmdur. Það var magnað að koma út í þetta góða veður, sólskinið. Einhver sem hafði átt leið hjá hafði lagt rós á þröskuldinn við húsið heima þannig að maður fylltist hlýju og svo heyrði maður fuglasönginn, það er svo mikið vor í lofti og hlýindi og sumar skammt undan svo þetta er frábær dagur til að kjósa,“  sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, í samtali við mbl.is í morgun.

Þá var hann nýbúinn að kjósa með eiginkonu sinni og elstu dóttur sem tók í fyrsta sinn þátt  í kosningum í dag.

Tvær kannanir voru gefnar út í gær sem sýndu tvær ólíkar niðurstöður: Að meirihlutinn félli annars vegar og að hann héldi hins vegar.

Verður mjótt á munum í kvöld?

 „Mér hefur fundist það liggja fyrir frá upphafi að þetta er jafnt og verður jafnt. Úrslitin munu að miklu leyti ráðast af kjörsókn. Stuðningsmenn grænnar borgarþróunar og spennandi borgar og þess að ég haldi áfram – ég hvet alla til þess að mæta og kjósa,“ sagði Dagur.

Viltu sjá  sama meirihluta eða sérð fyrir þér annars konar samstarf?

„Ég hef sagt það frá upphafi að ef meirihlutinn heldur er það mjög eðlilegt skref að setjast niður vegna þess að það hefur aldrei borið skugga á þetta samstarf. Það hefur verið styrkur að hafa ólíka flokka og það hefur gengið mjög vel.“

Ef meirihlutinn fellur segir Dagur að skoða þurfi málið upp á nýtt. Hann segir að borgarstjóraembættið sé ekki úrslitakostur fyrir hann.

Samfylkingin sér þó ekki fyrir sér að skoða samstarf við hvern sem er.

 „Sumir flokkar eru með mjög afturhaldssama stefnu eða eru mjög margklofnir í sinni afstöðu svo þeir væru sístu kostirnir í mínum huga,“ segir Dagur.

Spurður um það hvaða flokka um ræðir segir hann að það séu Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert