Flokkar á móti Borgarlínunni bíði mikinn ósigur

Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna.
Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta virðist hafa raðast þannig að þeir flokkar sem eru á móti Borgarlínunni bíða mikinn ósigur,“ segir Davíð Þor­láks­son fram­kvæmda­stjóri Betri sam­gangna ohf., sem held­ur meðal ann­ars utan um verk­efnið Borg­ar­lína, í samtali við mbl.is.

Hann bendir á að borgarfulltrúum sem hlynntir eru Borgarlínunni fjölgaði um þrjá eftir úrslit borgarstjórnarkosninganna og að nú sé einungis einn borgarfulltrúi á móti Borgarlínunni.

„Það er augljóst að það er ekki stuðningur við neinn meirihluta gegn Borgarlínunni eða sem styður einhverjar verulegar breytingar á henni,“ segir Davíð.

„Auðvitað var þetta ekki eina málið sem kosningarnar snerust um en það var samt nokkuð ljóst, og maður varð var við það í aðdraganda kosninganna, að Borgarlínan ásamt húsnæðis- og skipulagsmálum var eitt af stærstu málunum. Þannig að maður hefði haldið að það hafi skipt kjósendur máli.“

Framkvæmdir hefjast á þessu ári

Davíð segir að upp úr þessu búist hann við að vinna við Borgarlínuna haldi áfram nokkurn veginn líkt og lagt hefur verið upp með.

Framkvæmdir hefjast á þessu ári við Fossvogsbrú en búast má við að fyrstu Borgarlínuvagnarnir, í fyrsta áfanga verkefnisins, hefji akstur árið 2025.

Hann nefnir þó að verið sé að endurskoða tímaáætlunina núna og því geti hlutirnir breyst. 

„Um leið og Fossvogsbrúin verður tilbúin, vonandi árið 2024, þá munu hjólandi, gangandi og strætó byrja að nota hana þó að Borgarlínan sjálf sé ekki byrjuð að keyra þar.“

Davíð nefnir að lokum að úrslit kosninganna í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu bendi einnig til þess að stuðningurinn sé til staðar.

„Maður getur ekki lesið annað en stuðning við óbreytta stefnu í samgöngumálum heilt yfir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert