Líf vill ekki í meirihlutasamstarf

Líf Magneudóttir, oddviti og borgarfulltrúi Vinstri grænna.
Líf Magneudóttir, oddviti og borgarfulltrúi Vinstri grænna. Ljósmynd/Aðsend

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, segir að flokkurinn muni ekki sækjast eftir því að taka þátt í viðræðum um meirihlutasamstarf.

Flokkurinn hefur verið í meirihluta í borgarstjórn undanfarin ár og fékk einn fulltrúa kjörinn í kosningunum í gær, rétt eins og árið 2018.

Ætla að gefa sér svigrúm

„Við Vinstri græn héldum okkar borgarfulltrúa og er það gleðilegt. Hins vegar eru niðurstöður kosninganna veruleg vonbrigði fyrir okkur. Við höfðum væntingar til þess að styrkja rödd félagslegs réttlætis, kvenfrelsis og umhverfisverndar í borgarstjórn með því að bæta við okkur borgarfulltrúum. Okkur tókst það ekki. Meirihlutinn tapaði síðan samtals tveimur borgarfulltrúum og er þar með fallinn,“ skrifar Líf á Facebook.

„Eftir að hafa ráðfært mig við félaga mína erum við sammála um að niðurstaða kosninganna kalli á að við Vinstri græn leggjumst vel yfir það hvernig okkur getur tekist betur að koma okkar málefnum til skila. Til þess ætlum við að gefa okkur svigrúm,“ bætir hún við.

Nú hefjist nýr kafli

„Ég tilkynnti því samstarfsfélögum mínum í fráfarandi meirihluta að við Vinstri græn sækjumst ekki eftir því að taka þátt í viðræðum um meirihlutasamstarf. Við munum veita þeim meirihluta sem verður myndaður öflugt og málefnalegt aðhald og við erum ávallt tilbúin til samstarfs um mál sem miða að framgangi femínisma, félagslegs réttlætis, umhverfisverndar og loftslagsaðgerða,“ skrifar hún.

„Ég þakka öllum þeim sem treystu okkur fyrir því að bæta lífsgæði borgarbúa með atkvæði sínu og öllu því kraftmikla og harðduglega, strangheiðarlega fólki í hreyfingunni okkar sem lögðu krafta sína og hugdirfsku í kosningabaráttuna. Nú hefst nýr kafli hjá okkur og ég hef alla trú á því að hann verði borgarbúum og lífríki til góðs. Það er til mikils að vinna fyrir framtíðina og fyrir þau sem á eftir okkur koma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert