Sjálfstæðisflokkurinn fær sex borgarfulltrúa, Samfylkingin fimm fulltrúa og Framsóknarflokkurinn fær fjóra fulltrúa. Eru þetta lokaniðurstöður í borgarstjórnarkosningum árið 2022.
Píratar fá inn þrjá fulltrúa, Sósíalistaflokkurinn fær tvo og Vinstri græn, Flokkur fólksins og Viðreisn fá einn fulltrúa hver.
Alls voru talin 61.359 atkvæði. Þar af voru 1.198 kjörseðlar auðir og 212 ógildir.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 14.686 atkvæði, eða 24,5 prósent atkvæða. Samfylkingin fékk 12.164 atkvæði, eða 20,3 prósent og Framsóknarflokkurinn fékk 11.227 eða 18,7 prósent.
Þetta er besta gengi Framsóknarflokksins í Reykjavík frá upphafi og því sögulegur sigur flokksins. Á móti, er þetta sögulega lægsta fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið í borginni.
Píratar fengu 6.970 atkvæði, Sósíalistaflokkurinn hlaut 4.618, Viðreisn 3.111 og Miðflokkurinn 1.467 atkvæði.
Alls greiddu 2.701 atkvæði til Flokks fólksins og 2.396 til Vinstri grænna.
Besta borgin fékk 134 atkvæði og Ábyrg framtíð hlaut 475 atkvæði.