„Sá á kvölina sem á völina“

Orri Vignir Hlöðversson, oddviti Framsóknarflokksins í Kópavogi, er að sögn …
Orri Vignir Hlöðversson, oddviti Framsóknarflokksins í Kópavogi, er að sögn hoppandi kátur með úrslit kosninganna. Ljósmynd/Aðsend

Orri Vignir Hlöðversson, oddviti Framsóknarmanna í Kópavogi, segir ekkert óeðlilegt ef Vinir Kópavogs geri tilkall til þess að vera í meirihluta bæjarstjórnar.

„Jú, það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að þeir geri tilkall til þess. Þetta er hins vegar fjölskipað stjórnvald og þegar bæjarstjórnin tekur til starfa mun ég predika það að við reynum sem minnst að horfa á línurnar þannig séð, heldur erum við að vinna saman,“ segir Orri í samtali við mbl.is.

„Öll okkar sem eru í bæjarstjórn eigum að taka tillit til þessara skilaboða sem finnst í þeirra fylgi. Ég myndi í þeirra stöðu reyna að komast í meirihlutaviðræður, en sá á kvölina sem á völina. Fyrstu samskipti verða innan fráfarandi meirihluta. Ég held að fólki finnist það ekkert óeðlilegt.“

Skoði skipulagsmálin í nýju ljósi

Vinir Kópavogs er nýtt framboð aðila sem mótmæla skipulagsmálum í bænum. Þau fengu 15,3 prósent atkvæða, 0,1 prósentustigi meira en Framsókn sem var í bæjarstjórn með Sjálfstæðisflokki á kjörtímabilinu sem er að ljúka.

„Þeir eru að koma inn úr núlli í fimmtán prósent á nokkrum vikum. Þetta eru auðvitað skýr skilaboð til bæjaryfirvalda að taka skipulagsmálin enn fastari tökum og skoða þau í nýju ljósi, ekki síst við vegna þróunarreita og þéttingar byggðar,“ segir Orri.

„Það má kannski segja að þessi aukna áhersla á þéttingu byggðar kalli á annað verklag heldur en viðgengist hefur. Þetta er alveg sterkt ákall og við getum ekki látið sem ekkert sé.“

Hoppandi kátur með úrslitin

Orri segist ekki geta leynt því að hann sé hoppandi kátur með úrslit kosninganna.

„Þó svo að þau [Vinir Kópavogs] geti litið á sig sem sigurvegara kosninganna þá lítum við Framsóknarmenn klárlega á okkur sem annan sigurvegara kosninganna.“

Framsóknarflokkurinn fékk 15,2 prósent fylgi í kosningum gærdagsins en fengu 8,2 prósent árið 2018 og fara úr einum manni í tvo.

„Við settum okkur markmið að ná öðrum manni inn og náðum því með góðu fitulagi, ef svo má að orði komast. Við vorum ekkert langt frá því að tvöfalda fylgi flokksins í Kópavogi,“ segir Orri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka