Alls eru nýir borgarfulltrúar níu talsins eftir kosningar gærdagsins. Mestar breytingar eru hjá Framsókn sem náði inn fjórum fulltrúum en engum árið 2018 og eru því allir fulltrúar flokksins nýir.
Ný hjá Framsókn eru Einar Þorsteinsson, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir og Aðalsteinn Haukur Sverrisson.
Sjálfstæðisflokkurinn kynnir til leiks þrjá nýja borgarfulltrúa; þau Ragnhildi Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur, Kjartan Magnússon og Friðjón R. Friðjónsson. Á útleið eru þau Eyþór Laxdal Arnalds, Jórunn Pála Jónasdóttir, Katrín Atladóttir, Valgerður Sigurðardóttir og Örn Þórðarson. Af þeim hafði einungis Jórunn Pála verið á framboðslista flokksins til borgarstjórnarkosninga og skipaði hún 9. sætið.
Sósíalistaflokkurinn bætti við sig einum fulltrúa frá síðasta kjörtímabili og það er Trausti Breiðfjörð Magnússon. Píratar bættu líka við sig einum nýliða, Magnúsi Davíð Norðdahl.
Allir nýkjörnir borgarfulltrúar Samfylkingarinnar sátu í borgarstjórn á síðasta kjörtímabili en flokkurinn missti tvo fulltrúa og á útleið eru Ellen Jacqueline Calmon og Ragna Sigurðardóttir. Ellen hafði gefið kost á sér í 9. sæti framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík og Ragna skipaði 10. sætið.
Viðreisn náði aðeins inn einum einum fulltrúa og því er á útleið Pawel Bartoszek sem hafði skipað annað sæti listans. Engar breytingar urðu á Flokki fólksins og Vinstri grænum sem náðu bæði inn einum fulltrúa, rétt eins og árið 2018.
Miðflokkurinn náði ekki inn neinum borgarfulltrúa og á útleið er Vígdís Hauksdóttir. Hún bauð sig ekki fram.