Kjörsókn í Reykjavík í nýafstöðnum borgarstjórnarkosningum var 61,1% og dróst mjög saman frá síðustu kosningum, árið 2018, en þá var kjörsókn 67%. Eftir að ný kosningalög tóku gildi í byrjun árs fjölgaði kjósendum á kjörskrá um rúmlega tíu þúsund í borginni. Vert er að nefna að tæplega þúsund fleiri greiddu atkvæði í borgarstjórnakosningunum í ár en árið 2018.
Ef horft er á landið allt í heild sinni var kjörsókn 63% í kosningunum á laugardag miðað við 68% kjörsókn í sveitarstjórnarkosningunum árið 2018. Ljóst er því að þarna munar miklu.
Reykjanesbær dró vagninn með lökustu kjörsóknina, en aðeins 47,1% fólks á kjörskrá greiddi atkvæði á laugardag, saman borið við 57% kjörsókn í bæjarstjórnarkosningunum árið 2018, sem er samdráttur upp á nærri tíu prósentustig. Í kosningum 2018 var Reykjanesbær einnig með lökustu kjörsóknina á landinu.
Ef kjörsókn í stærstu sveitarfélögum landsins, þar sem íbúafjöldi er yfir tveimur þúsundum, er skoðuð þá leiðir Vestmannaeyjabær með 80,9% kjörsókn. Þrátt fyrir að leiða er þetta samdráttur um rúmt prósentustig frá síðustu kosningum. Aðeins í Hafnarfirði eykst kjörsókn milli kosninga, 60,4% kjörsókn nú en hún stóð í 58,1% árið 2018.
Kjörsókn í Kópavogi í kosningunum á laugardag var 58,2%, sem er samdráttur um rúm fimm prósentustig, en þegar kjörstöðum lokaði árið 2018 höfðu 63,4% fólks á kjörskrá greitt atkvæði. Á Akureyri dróst kjörsókn saman um rúm tvö prósentustig milli kosninga.
Kjörsókn í Garðabæ dróst saman um tæp þrjú prósentustig milli kosninga. Á laugardag var kjörsókn 64,1% miðað við 67% kjörsókn í bæjarstjórnarkosningunum 2018. Álíka samdrátt má finna í Mosfellsbæ en kjörsókn þar í kosningunum á laugardag var 61,2%, miðað við 64,7% kjörsókn árið 2018. logis@mbl.is