Oddvitar flokkanna sem skipuðu meirihlutann í borgarstjórn á síðasta kjörtímabili, að Vinstri grænum undanskildum, ætla að fylgjast að í viðræðum um myndun nýs meirihluta. Þetta sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Morgunútvarpi Rásar 2.
Samfylkingin, Píratar og Viðreisn, flokkarnir sem um ræðir, eru samtals með níu borgarfulltrúa og vantar því þrjá upp á til að mynda nýjan meirihluta, eða 12 borgarfulltrúa af 23.
Ekki standa margir kostir til boða en Sósíalistaflokkurinn hefur útilokað samstarf með Viðreisn og Píratar hafa útilokað samstarf með Sjálfstæðisflokknum. Þá hefur Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna og eini borgarfulltrúi flokksins, sagt að flokkurinn muni ekki sækjast eftir viðræðum um meirihlutasamstarf.
Eftir stendur Flokkur fólksins með einn kjörinn fulltrúa og Framsóknarflokkurinn sem margir telja að hafi unnið borgarstjórnarkosningarnar, með fjóra kjörna fulltrúa.
Í Morgunblaðinu í dag var greint frá því að þreifingar um meirihlutasamstarf Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokksins, væru hafnar. Gætu flokkarnir myndað meirihluta án Viðreisnar með 12 fulltrúum í stað 13.
Framsóknarflokkurinn, sem er í lykilstöðu með fjóra nýja fulltrúa í borgarstjórn, gæti aftur á móti einnig myndað meirihluta með Sjálfstæðisflokknum, Viðreisn og einum flokki til viðbótar, til að mynda Flokki fólksins.