Segir útspil meirihlutans „mjög sérkennilegt“

Hildur segir málefnalegan samhljóm milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna.
Hildur segir málefnalegan samhljóm milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir útspil meirihlutans í morgun, er varðar viðræður um áframhaldandi samstarf milli þeirra, „mjög sérkennilegt“ enda hafi kjósendur kallað mjög skýrt eftir breytingum.

Hún telur þó enn ýmsa möguleika í boði er varða meirihlutasamstarf í borgarstjórn enda hafi oddviti Viðreisnar gefið til kynna fyrr í dag að hún hafi áhuga á að teygja sig til hægri.

Hildur útilokar þó ekki myndun þriggja flokka meirihluta með Samfylkingu og Framsókn, en telur aðrar stjórnarmyndanir vissulega ákjósanlegri. Sjálfstæðisflokkurinn, sem stærsti flokkurinn, mun setja sig í samband við alla og kanna hvar helsti málefnagrundvöllurinn liggur.

„Það hlýtur að fara eitthvað að koma í ljós á næstu dögum,“ segir Hildur í samtali við mbl.is.

Skýrt ákall

Að sögn Hildar er Sjálfstæðisflokkurinn í ágætri stöðu til að mynda meirihluta og segir hún ýmsa möguleika á teikniborðinu. Þá sé niðurstaða kosninganna skýr: Þeir flokkar sem töluðu fyrir breytingum felldu meirihlutann. 

„Fólkið í borginni er að kalla eftir nýrri forystu og nýjum áherslum. Mér finnst eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn leiði slíkan meirihluta sem stærsti flokkurinn í borginni.“

Í morgun sagði Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, að oddvitar flokkanna úr meirihlutanum, að Vinstri grænum undanskildum, ætluðu að fylgjast að í viðræðum næstu daga um myndun nýs meirihluta.

„Manni fannst þetta útspil mjög sérkennilegt, ekki síður vegna þess að meirihlutinn féll og hann féll líka fyrir síðustu kosningar og það er mjög skýrt ákall frá kjósendum á breytingar,“ segir Hildur innt eftir viðbrögðum við þeim fregnum.

Hefðin gefi til kynna að flokkurinn fái embættið

Spurð um mögulegt samstarf við Framsóknarflokkinn, sem lagði einnig mikla áherslu á breytingar í sinni kosningabaráttu, segir Hildur slíka niðurstöðu vera áhugaverða. 

„Vegna þess að þar er málefnalegur samhljómur um stóru og breiðu línurnar. En við höfum ekki fest okkur í neinu og erum bara reiðubúin að starfa með öllum að góðum málum. Það sem mestu skiptir er að skapa hérna starfhæfa og öfluga stjórn fyrir borgina, fyrir næstu fjögur ár, þar sem við getum komið góðum málum í framkvæmd.“

Hvað varðar kröfu flokksins til borgarstjórastólsins, segir Hildur bæði eðlilegt og ríka hefð vera fyrir því að stærsti flokkurinn fari með borgarstjórastólinn. Áherslur á málefni og að mynda öfluga stjórn vegi þó þyngra í viðræðum um meirihlutasamstarf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka