Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, útilokar ekki að ganga í meirihlutasamstarf með Sjálfstæðisflokknum og Framsókn, þrátt fyrir að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi í morgun sagt að Viðreisn, Píratar og Samfylkingin ætli að fylgjast að í viðræðum næstu daga um myndun nýs meirihluta.
Sem formaður borgarráðs hafi hún unnið mjög mikið með Sjálfstæðisflokknum á undanförnu kjörtímabili, m.a. með málefni er varða atvinnustefnu, eigendastefnu og ferðaþjónustu borgarinnar, þó samstarfið hafi ekki verið áberandi í fjölmiðlum.
„Ég hef lært í pólitík að útiloka aldrei neitt og ég held að það sé bara mjög mikil lexía.“
Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn þurfa einn flokk til viðbótar til að mynda meirihluta, en sömu sögu er að segja af samstarfi Viðreisnar með Samfylkingunni og Pírötum.
Lóa segir Viðreisn hafa gengið óbundið til kosninga og geta þau unnið með öllum flokkum sem fengu fulltrúa í borgarstjórn. Mestu átakalínurnar eru þó við Sósíalista, sem hafa lýst því yfir að þau vilji ekki samstarf með Viðreisn.
„Þau vilja ríkis- og opinbervæða allt á meðan við viljum að atvinnulífið sjái um sitt og sveitarfélögin sjái um sitt. Við erum mjög ólíkir flokkar. En aðrir flokkar, eins og Framsókn, höfum við alveg mætur á og getum unnið með, eða Sjálfstæðisflokknum.“
Þórdís Lóa staðfestir þó að flokkar úr meirihluta síðasta kjörtímabils, að Vinstri grænum undanskildum, hafi vissulega rætt saman um að fylgjast að í viðræðum. Ýmislegt geti þó gerst í fyrstu vikunni.
„Við hittumst í gær og fórum aðeins yfir stöðuna og ræddum það að vera samferða. Píratar juku við sig og við lítum svo á að stóru málin, eins og samgöngusáttmálinn og fleira, að það sé mikill stuðningur borgarbúa við það því yfir 60 prósent af atkvæðunum fóru til flokka sem að voru mjög skýrir hvað það varðar. Þannig okkur þótti ekki óeðlilegt ef að við myndum stilla saman strengi og fylgjast aðeins að í þessu,“ segir Þórdís Lóa.
„Við erum nú búin að fara í gegnum svona áður, við vitum alveg að þetta fer allt í hringi og það gerist ýmislegt á fyrstu vikunni.“
Viðreisn, Samfylking og Píratar eru samtals með níu borgarfulltrúa og þurfa því þrjá að auki til að mynda nýjan meirihluta, eða 12 borgarfulltrúa af 23. Vantar því að minnsta kosti einn flokk til viðbótar inn í samstarfið.
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru einu tveir flokkarnir með nógu marga fulltrúa til að fylla það pláss en Píratar vilja þó ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum. Er Framsóknarflokkurinn sagður vera í lykilstöðu í viðræðunum.
Þá var einnig greint frá því í Morgunblaðinu í dag að hafnar séu þreifingar um meirihlutasamstarf Samfylkingar, Framsóknar og Pírata.