Ákvörðun um samstarf liggi vonandi fyrir á morgun

Meirihlutinn í Kópavogi hélt velli í bæjarstjórnarkosningunum.
Meirihlutinn í Kópavogi hélt velli í bæjarstjórnarkosningunum. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Oddvitar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi stefna á að vera búnir að ákveða á morgun hvort þeir halda áfram meirihlutasamstarfi flokkanna eður ei. Viðræður hafa staðið yfir frá því að niðurstöður kosninga lágu fyrir og hafa samtölin verið góð, að sögn oddvita Framsóknar. Engin ágreiningsefni hafi komið upp sem ógna samstarfinu. 

„Meirihlutinn hjá okkur hélt og við sögðum það í aðdraganda kosninganna, í kosningabaráttunni og á kosninganótt, að við teldum eðlilegt að fyrstu símtöl og fundir færu þangað. Og það er það sem hefur verið að gerast, við erum búin að vera í sambandi,“ segir Orri Vignir Hlöðversson, oddviti Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is.

Orri Vignir Hlöðversson, oddviti Framsóknarflokksins í Kópavogi.
Orri Vignir Hlöðversson, oddviti Framsóknarflokksins í Kópavogi. Ljósmynd/Aðsend

Sterkari staða

Flokkarnir eru samanlagt með sex fulltrúa í bæjarstjórn af ellefu, eins og á síðasta kjörtímabili. Sjálfstæðisflokkurinn missti einn fulltrúa og er því með fjóra í stað fimm en Framsókn bætti við sig og er með tvo í stað eins áður.

Spurður að því hvort breytt hlutföll styrki stöðu flokksins í viðræðum, kveðst Orri ekki geta neitað því. 

„Hlutföllin breyttust og það er nokkuð sem ég held að allir skilji að speglist inn í svona samstarf. Það er algjörlega klárt í mínum huga. Við horfum alveg á það og ég trúi því að félagar okkar hinum megin horfi einnig á það.“

Endurnýjun í flokkunum

Orri segir viðræður við Sjálfstæðisflokkinn hafa gengið vel hingað til en samt sem áður á eftir að fara yfir ýmis málefni báðum megin, sem tekur tíma.

„Síðan þarf auðvitað að taka umræðuna um það hverjir verða hvar og hvor flokkur verður hvar í stjórnuninni á kjörtímabilinu. Þetta eru grunnþættir sem borgar sig að fara út í, áður en menn og konur fara að kalla þetta formlegar samningaviðræður. Þetta er aðdragandinn. Það er ekkert á borðinu ennþá sem hefur latt mann í þessu.“

Hann segir samstarf flokkanna á síðasta kjörtímabili hafa gengið vel en bendir þó á að nokkur endurnýjun hafi átt sér stað í báðum flokkum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert