Viðræður um meirihlutasamstarf í borgarstjórn halda áfram en oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík mun ræða við oddvita Pírata í dag. Hann hefur þegar gengið á fund oddvita Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins en þær samræður fóru fram í gær.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins, sagði í gær í samtali við mbl.is að hún hafi beðið við símann en ekkert símtal fengið, hvorki frá Einari Þorsteinssyni, oddvita Framsóknarflokksins, né frá Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar.
Sömu sögu er að segja frá Kolbrúnu Baldursdóttur, oddvita Flokks fólksins, en enginn oddviti hefur átt formlegar samræður við hana um samstarf.
Í samtali við mbl.is í dag segir Einar að hann muni funda með öllum oddvitum sem eiga fulltrúa í borgarstjórn. Hann sé enn að fara „hringinn.“ Má því áætla að Sanna og Kolbrún muni að lokum fá símtal frá framsóknarmanninum.