Samningurinn um Blikastaðaland verði skoðaður vel

Lega og landkostir Blikastaðalands eru miklir og þar á að …
Lega og landkostir Blikastaðalands eru miklir og þar á að rísa eitt glæsilegasta hverfið á öllu höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Framsóknarflokkurinn, Viðreisn, Vinir Mosfellsbæjar og Samfylkingin í Mosfellsbæ munu hefja formlegar viðræður um meirihlutasamstarf  innan skamms en samanlagt náðu framboðin sjö kjörnum fulltrúum í bæjarstjórn, af ellefu.

Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins, kveðst ánægð með niðurstöðurnar sem séu skýrt ákall um breytingar en flokkurinn, sem var ekki með neinn fulltrúa í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili, fékk 32,2% atkvæða, mest allra flokka, og fjóra kjörna fulltrúa. 

Hún segir stór verkefni bíða þeirra flokka sem munu skipan nýjan meirihluta, m.a. uppbygging á Blikastaðalandi og ætlar hún að kynna sér efni samningins vel. 

Kosningarnar marka enda á stjórnarsetu Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna í Mosfellsbæ sem hafa verið í bæjarstjórn í tæpa tvo áratugi. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 27,3% atkvæða og fjóra fulltrúa, en Vinstri grænir fengu engan kjörinn fulltrúa.

Oddvitar framboðslista Mosfellsbæjar í kosningaþætti Dagmála viku fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Þar …
Oddvitar framboðslista Mosfellsbæjar í kosningaþætti Dagmála viku fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Þar var samningur um Blikastaðaland ræddur. mbl.is/Ágúst Ólíver

Munu skoða samning um Blikastaðaland vel

Rétt fyrir kosningar skrifuðu fulltrúar bæjarstjórnar undir samning við landeiganda Blikastaðalands um uppbyggingu á svæðinu. Samningurinn er, að sögn Haralds Sverrissonar fráfarandi bæjarstjóra, sá stærsti sem sveitarfélag hefur gert við landeiganda frá upphafi en með honum er grunnurinn lagður að uppbyggingu hátt í þrjú þúsund og sjö hundruð íbúða sem er áætlað að muni hýsa níu þúsund íbúa.

Samningurinn var, að mati fulltrúa minnihlutans í bæjarstjórn, afgreiddur afar fljótt og voru þau afar gagnrýnin á það, sérstaklega í ljósi þess hver stór hann var. Þótti mörgum of lítill tími hafa gefist við að rýna í samninginn og leita ráðlegginga varðandi hann. Þetta kom fram í máli oddvita flokkanna í minnihluta í kosningaþætti Dagmála.

Aðspurð segir Halla Karen stórt verkefni bíða nýs meirihluta og munu þau byrja á því fljótlega að „kafa“ ofan í efni samningsins sem um ræðir. Hún hafi þó ekki, eða neinn annar í Framsókn, verið í minnihluta á þeim tíma sem samningurinn var samþykktur og getur því ekki tjáð sig um afgreiðslu hans en er þó meðvituð um gagnrýnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert