Ásdís og Orri hefja formlegar viðræður

Orri Vignir Hlöðversson og Ásdís Kristjánsdóttir ræða nú samstarf.
Orri Vignir Hlöðversson og Ásdís Kristjánsdóttir ræða nú samstarf.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn í Kópavogi hafa ákveðið að hefja formlegar viðræður um myndun meirihluta. Síðustu daga hafa fulltrúar flokkanna rætt saman og farið yfir áherslur sínar.

„Samhljómur er milli flokkanna um verkefni næstu ára og var því ákveðið í dag að hefja formlegar viðræður um myndun meirihluta,“ segir í tilkynningu frá oddvitum flokkanna, þeim Ásdísi Kristjánsdóttur, Sjálfstæðisflokki, og Orra Vigni Hlöðverssyni, Framsóknarflokki.

„Framundan er vinna við að skrifa málefnasamning, móta áherslur og skilgreina verkefni næstu ára. Við gerum okkur væntingar um að vinnan muni ganga hratt og örugglega fyrir sig.“

Ásdís líklegur bæjarstjóri

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn áttu einnig í meirihlutasamstarfi á síðasta kjörtímabili. Sjálfstæðisflokkurinn missti einn fulltrúa í kosningunum en er samt sem áður stærsti flokkurinn. Framsóknarflokkurinn bætti við sig einum fulltrúa. 

Ásdís hefur þegar gefið það út að hún muni sækjast eftir bæjarstjórastólnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert