Oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri segir að mögulega hefði verið hægt að standa betur að því að láta Bæjarlistann vita af svokölluðum BDSM-viðræðum um meirihlutasamstarf. Áður höfðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur átt í formlegum viðræðum við Bæjarlistann sem hlaut mest fylgi í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum.
Nú eru formlegu viðræðurnar aftur á móti á milli Framsóknar (B), Sjálfstæðisflokks (D), Samfylkingar (S) og Miðflokks (M). Heimir Örn Árnason, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, segir flokkana hafa átt góðan fund í gær og að staðan líti vel út.
„Fundirnir eru meira á jafnréttisgrundvelli og allir að vinna fyrir hvorn annan á þessum fundum,“ segir Heimir.
Bæjarlistinn fékk þrjá fulltrúa kjörna í kosningunum síðastliðinn laugardag en Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn tvo hvorn. Samfylking og Miðflokkur fengu einn á mann. Vinstri græn fengu einnig einn fulltrúa kjörinn, sem og Flokkur fólksins.
Var Bæjarlistinn að fara fram á of mikið?
„Nei, nei. Við sáum það bara að þetta væri ekkert að ganga upp og leituðum annað.“
Var eitthvað sérstakt sem sýndi ykkur að þetta myndi ekki ganga upp?
„Það voru bara nokkur mál, ekkert eitt.“
Hulda Elma Eysteinsdóttir, bæjarfulltrúi Bæjarlistans, sagði í samtali við mbl.is fyrr í vikunni að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafi brotið heiðurssamkomulag þegar þeir hófu voðræður við Samfylkinguna og Miðflokkinn án vitundar Bæjarlistans sem átti þá í formlegum viðræðum við fyrrnefndu flokkana tvo.
Hefðuð þið átt að láta Bæjarlistann vita?
„Já og nei, það hefði alveg getað verið gert betur en svona er bara lífið og pólitíkin. Við ætlum bara að gera okkar besta fyrir bæinn.“
Hverjar eru ykkar kröfur í þessum viðræðum, viljið þið til dæmis bæjarstjórastólinn?
„Við erum bara ekki komin þangað. Við erum bara að ræða þetta og setjast niður og það er enginn með einhverjar svakalegar kröfur.“
Heimir segir að tíðinda megi vænta á mánudag.