Aldís verður sveitarstjóri í Hrunamannahreppi

Aldís Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og næsti sveitarstjóri Hrunamannahrepps.
Aldís Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og næsti sveitarstjóri Hrunamannahrepps. mbl.is/Sigurður Bogi

Aldís Hafsteinsdóttir fráfarandi sveitarstjóri í Hveragerði verður næsti sveitarstjóri í Hrunamannahreppi.

„Niðurstöður kosninga í Hveragerði gerðu það að verkum að ég held ekki stöðu minni þar. Þeir höfðu samband strax og þeir sáu að ég yrði ekki áfram í Hveragerði. Við erum búin að vera að ræða saman undanfarna daga og það gekk svona ljómandi vel. Þarna er kominn nýr hreinn meirihluti Sjálfstæðismanna, afskaplega áhugasamt og duglegt fólk sem ég held að sé að fara að gera mjög góða hluti í Hrunamannahreppi. Það er svo áhugavert að taka við sveitarfélagi eins og Hrunamannahreppi sem bíður upp á eins marga möguleika og raun ber vitni,“ segir Aldís í samtali við mbl.is

Aldís, sem er búsett í Hveragerði, segir það eftir að koma í ljós hvort hún muni flytja í Hrunamannahrepp, en hún mun keyra á milli til að byrja með.

Leiðinlegt að yfirgefa Hveragerði

„Þau voru alveg ákveðin í því að bjóða mér þessa stöðu og þegar ég var búin að skoða þetta og kynna mér þeirra stefnuskrá og málefni og hvað þau standa fyrir þá leist mér afskaplega vel á þetta.“

Aldís segir það auðvitað leiðinlegt að vera að yfirgefa sveitarstjórnarmálin í Hveragerði en: „svona fóru kosningarnar, þá taka bara við ný tækifæri og ný ævintýri. Ég sé mikla möguleika þarna í þessu sveitarfélagi og ég sé fyrir mér að þarna verði mjög mikill vöxtur á næstu árum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka