Getur ekki setið undir orðum þingmannsins

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég get ekki setið undir þessum orðum þingmannsins,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, þegar hann og Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, körpuðu um útlendingastefnu á Alþingi í dag. 

Í óundirbúnum fyrirspurnum beindi Sigmar spurningu til ráðherra. Fullyrti hann að framkoma gagnvart börnum og fjölskyldum á flótta hafi orðið „sífellt harðari og ómanneskjulegri“ hjá íslenskum yfirvöldum á síðustu fimm árum. Nú standi til að vísa 300 einstaklingum úr landi og sagði Sigmar aðstæður hjá Grikkjum vera „algerlega óboðlegar“.

Því vil ég spyrja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra og varaformann VG hvernig hann getur réttlætt það fyrir sjálfum sér að senda annað fólk í aðstæður sem hann myndi aldrei kalla yfir sig og sína?

Ýmislegt í löngum inngangi að spurningunni hjá Sigmari féll ekki sérstaklega í kramið hjá ráðherranum. „Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Sú umræða sem hér hefur verið í dag hefur gengið út á það að hér sé rekin ein harðasta útlendingastefna á Norðurlöndunum og jafnvel þótt víðar væri leitað. Þá spyr ég mig: Hvers vegna er það sem Íslendingar hafa núna síðan árið 2018, og þá minni ég á þá staðreynd að Katrín Jakobsdóttir tók við sem forsætisráðherra árið 2017, í síauknum mæli tekið á móti fleira og fleira fólki, svo munar hundruðum. Það er jákvætt. En samt þarf maður að sitja undir því að hér sé verið að gera minna en aðrir eða önnur lönd. Tölurnar tala sínu máli, hv. þingmaður.

Við getum líka farið ofan í saumana á því hvort hér sé útlendingastefna sem sé harðari eða að verða jafn hörð og er að gerast á Norðurlöndunum, eins og t.d. í Danmörku. Það náttúrlega stenst enga skoðun eins og forsætisráðherra fór ágætlega yfir áðan. Við getum líka horft til þess hvaða breytingar það eru sem íslensk stjórnvöld eru að gera núna með því að færa þjónustu við fólk sem er að leita sér að alþjóðlegri vernd úr dómsmálaráðuneytinu og yfir til félagsmálaráðuneytisins. Það er jákvæð breyting, hv. þingmaður. Það er mjög jákvæð breyting vegna þess að þar með getum við samhæft þjónustuna og við getum tekið betur á móti fólki. Og hvað höfum við verið að gera, þessi ríkisstjórn? Hverju hef ég beitt mér fyrir sem félags- og vinnumarkaðsráðherra, þessa fáu mánuði sem ég hef setið í því embætti? Jú, að fá fleira fólk frá Afganistan, svo dæmi sé tekið, þar sem við erum að taka utan um konur sem eru einstæðar, sem búa við raunveruleika sem við getum ekki einu sinni gert okkur í hugarlund. Það er líka stefna, hv. þingmaður. Ég gæti nefnt hérna að taka sérstaklega á móti viðkvæmum hópum innan þess hóps sem er í Úkraínu, eins og fötluðu fólki og veiku fólki. Ég get ekki setið undir þessum orðum þingmannsins,“ sagði Guðmundur Ingi en Sigmar fór þá aftur í pontu og sagði hann þurfa að gera það. 

„Þarf að sitja undir því sem hér er sagt“

Hæstv. ráðherra þarf bara að sitja undir því sem hér er sagt í ræðustóli Alþingis. Það er hægt að vitna í umsagnir Rauða krossins og mannúðarsamtaka um stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki. Það er hægt að gera það ítrekað, aftur og aftur og aftur. Það er hægt að vitna í orð hæstv. forsætisráðherra sem sagði fyrir ekki löngu síðan að við ættum alltaf að hlusta eftir því sem Rauði krossinn segir og mannúðarsamtök segja. Þegar koma síðan umsagnir frá þessum aðilum gagnvart málum sem ríkisstjórnin er að leggja fyrir þingið þá er það endalaus falleinkunn.

Sigmar Guðmundsson.
Sigmar Guðmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunni, sem sneri að þeim tæplega 300 manns sem stendur til að senda í burtu úr öryggi í óöryggi, úr öryggi í harðræði, hvernig hann getur réttlætt það fyrir sjálfum sér að bjóða þessu fólki upp á aðstæður og kjör sem hann myndi aldrei bjóða sér og sínum upp á. Hvernig getur hann sem ráðherra VG kvittaði upp á það að stefnan eigi að vera sú sem mörkuð er af hæstv. dómsmálaráðherra?

Guðmundur Ingi svaraði öðru sinni og sagðist ekki útiloka að eitthvað mætti skoða betur í þessum málaflokki sem væri ekki á forræði hans. Ráðherrann minnti á að ekki væri annað hægt en að hafa einhverjar reglur í málefnum flóttafólks og nú sé farið eftir reglunum. 

Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið. Ég er í ágætum samskiptum við félagasamtök, þar með talið Rauða krossinn. Ég hef ekki heyrt frá þeim að það sé falleinkunn að bjóða sérstökum hópum frá Afganistan hingað til lands eða sérstökum hópum frá Úkraínu sem ég nefndi hérna í máli mínu hér á undan. Ég ætla ekki að mæla gegn því að aðstæður í Grikklandi séu slæmar. Það mun ég ekki gera. Þarf að athuga aðstæður þeirra sem núna stendur til að senda í burtu? Það kann vel að vera að þess þurfi en við megum samt ekki gleyma því að við verðum að hafa einhverjar reglur og þetta fólk hefur farið í gegnum þær reglur og þetta var niðurstaðan. En hvort það sé eitthvað í þessum málum sem þyrfti að skoða betur — ég ætla ekki að útiloka það. Málið er hins vegar á forræði dómsmálaráðherra og ég vísa öllum frekari fyrirspurnum um það til hans,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka