Meirihlutar taka á sig mynd

Rúm vika er síðan Íslendingar gengu til sveitarstjórnarkosninga, en síðan þá hafa miklar þreifingar flokkanna farið af stað og sums staðar hefur meirihluti þegar verið myndaður. Meirihlutaviðræður í Grindavík hafa tekið heldur óvænta stefnu en sjálfstæðismenn leiða nú óformlegar meirihlutaviðræður við Framsókn og Rödd unga fólksins. Þetta er nokkuð óvænt þar sem Miðflokkurinn var sigurvegari kosninganna í Grindavík með 32,4% fylgi.

Hallfríður Hólmgrímsdóttir, oddviti Miðflokksins í Grindavík, segir það algjörlega „galið“ og gegn vilja fólksins að Miðflokkurinn sé ekki í meirihluta gangi áform sjálfstæðismanna eftir. Spurð hvers vegna flokkurinn sé ekki að leiða meirihlutaviðræður svarar Hallfríður í samtali við Morgunblaðið: „Það var bara fullreynt hjá okkur við Framsókn og Rödd unga fólksins. Hvorugur flokkurinn vildi ganga í meirihlutasamstarf með okkur.“

Aðspurð segir Hallfríður að Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki átt í viðræðum um mögulega meirihlutamyndun.

„Við óskuðum ekki eftir viðræðum við hann, við töldum að það væri ekki endilega vilji fólksins þar sem þeir voru að tapa svo miklu fylgi,“ segir Hallfríður og bætir við að flokkurinn verði einn í minnihluta nái samstarf Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Raddar unga fólksins í gegn. „Þeir eru með sviðið, ég bíð bara átekta. Þetta er alveg ótrúleg sviðsmynd sem er að myndast hérna, en þetta kemur í ljós.“

Formlegar meirihlutaviðræður milli Framsóknarflokksins, Samfylkingar og Beinnar leiðar hófust í gærkvöldi í Reykjanesbæ. Þetta staðfestir Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ. „Við höfum verið að tala saman óformlega, en nú eru formlegar viðræður hafnar. Ég vona að við tökum næstu viku í þetta,“ segir Friðjón.

Meirihlutaviðræður Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar í Skagafirði ganga vel að sögn Einars Eðvarðs Einarssonar, oddvita Framsóknarflokksins í Skagafirði. „Niðurstöður kosninganna voru þannig að það lá beint við að skoða þann kost fyrst. Við erum með sama fulltrúafjölda, báðir flokkar. Þetta samtal gengur vel og við ætlum að reyna að klára þetta um helgina,“ segir Einar í samtali við Morgunblaðið og bætir því við að flokkarnir hafi síðastliðin átta ár verið í meirihluta saman. Aðspurður segir Einar að það verði alltaf einhverjar áherslubreytingar á nýju kjörtímabili, sérstaklega þegar nýtt fólk er að koma inn. Varðandi næsta sveitarstjóra Skagafjarðar er ekki búið að taka ákvörðun hvort framlengt verður við núverandi sveitarstjóra eða hvort nýr verður ráðinn inn.

Meirihlutaviðræður milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar eru einnig yfirstandandi í hinum tveimur sveitarfélögunum á Norðurlandi vestra, sveitarfélagi Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps og Húnaþingi vestra. Á fimmtudag þurfti að grípa til endurtalningar í Húnaþingi vestra þar sem munur á atkvæðum var mjór. Talningin leiddi í ljós tvö frávik en breyting hafði ekki áhrif á röðun fulltrúa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka