Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík, og nýkjörnir borgarfulltrúar héldu í gærkvöldi fund með grasrót flokksins í borginni í höfuðstöðvum flokksins á Hverfisgötu. Stjórnir kjördæmasambands flokksins í Reykjavík og félagsins í Reykjavík og Félags ungra framsóknarmanna voru boðaðar ásamt frambjóðendum á lista og var vel mætt.
Að sögn Einars fóru fram hreinskiptnar umræður um framhald viðræðna um meirihlutamyndun og aðkomu flokksins að þeim.
Ítrekun Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, oddvita Viðreisnar, á þátttöku síns flokks í bandalagi við Samfylkingu og Pírata um meirihlutamyndun hefur gert það að verkum að kostir til þess að mynda meirihluta til hægri eru svo að segja úr sögunni. Kostir og gallar mögulegs samstarfs til vinstri, við Samfylkingu, Pírata og Viðreisn, voru mikið ræddir á fundinum.
Heimildir Morgunblaðsins herma að samhljómur hafi verið innan grasrótarinnar um að verði gengið til formlegra viðræðna til vinstri verði gerð skýlaus krafa um að Einar verði borgarstjóri allt næsta kjörtímabil.
Þá hafi komið fram traust til Einars og borgarfulltrúanna um að ákveða næstu skref og mun Einar funda með borgarfulltrúunum þremur síðar í dag til þess að ræða og ákveða hvort þau vilji hefja formlegar viðræður til vinstri. Fundurinn stóð í á þriðja tíma þar sem fram komu ýmis sjónarmið en ekki var tekin skýr afstaða til þess hvort flokknum hugnaðist samstarf til vinstri eða hægri.