Meirihlutaþreifingar vegna bæjarstjórnarsamstarfs á Akureyri eru í fullum gangi eftir að viðræðum þar var slitið í annað sinn.
Samfylkingin sleit viðræðum við Framsóknarflokk, Sjálfstæðisflokk og Miðflokk í morgun.
„Það eru allir að tala við alla,“ segir Sunna Hlíf Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar, í samtali við mbl.is. Hún vildi ekki gefa út frekari upplýsingar um stöðuna.
Fyrst fóru formlegar meirihlutaviðræður fram á Akureyri á milli Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Bæjarlistans skömmu eftir kosningar. Viðræðurnar komust í fjölmiðla þegar þeim var slitið 17. maí og bæjarfulltrúi Bæjarlistans sagði að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hefðu ráðist í viðræður við Miðflokk og Samfylkingu á bak við Bæjarlistann.
„Kjósendur eru klárlega ekki að fá það sem þeir vilja,“ sagði Hulda Elma Eysteinsdóttir, bæjarfulltrúi Bæjarlistans, í samtali við mbl.is eftir það.
Bæjarlistinn fékk flesta fulltrúa inn í bæjarstjórn eða þrjá en Sjálfstæðisflokkur og Framsókn fengu einn fulltrúa hvor. Þá fengu Flokkur fólksins, Miðflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri græn einn fulltrúa á mann. Því er ljóst að ýmsir möguleikar eru á borðinu hvað varðar meirihlutamyndun þó að svokölluð BDSM-bæjarstjórn hafi verið slegin út af borðinu, mörgum spéfuglinum eflaust til ama.