Jákvæður en beitir sér fyrir breytingum

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík.
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, segir að fyrsti fundur mögulegs meirihluta hafi gengið vel og að hann sé jákvæður fyrir framhaldinu. Hann bendir samt á að Framsóknarflokkurinn ætli að beita sér fyrir breytingum þó að hann muni mögulega vinna með flokkunum úr fyrri meirihluta.

Oddvitar flokkanna ræddu hvernig viðræðum verður hagað næstu dagana og einnig um málefni barna á fyrsta fundi mögulegs meirihluta.

Spurður um borgarstjórastólinn segir Einar að enn sem komið er sé ekki búið að ræða neitt varðandi það hver verður borgarstjóri. Hann nefnir að þessi fyrsti fundur hafi verið haldinn til að stilla saman strengi og ákveða hvernig framhaldið verður.

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Beitir sér fyrir breytingum

Einar segir öllum í mögulegum meirihluta koma mjög vel saman og að um sé að ræða gott fólk í öllum flokkum. „Það er auðvitað mjög mikilvægt að það sé góður andi og vilji til að semja. Þetta eru ólíkir flokkar með ólíkar stefnur í sumum málum,“ segir Einar og bætir við að mikilvægast sé að nálgast viðræðurnar með opnum huga. 

Einar bendir þó á að Framsókn ætli að beita sér fyrir breytingum í borginni þrátt fyrir að nú muni flokkurinn mögulega vinna með flokkunum úr fyrri meirihluta. „Við förum inn í þessar viðræður með okkar áherslumál og okkur þykir að málefnasamningur eigi að endurspegla það ákall um breytingar sem kjósendur sýndu í kosningunum.“

Spurður hvaða áhrif það hafi að svona ólíkir flokkar komi saman segir Einar að allir þurfi að gefa eitthvað eftir. „Þegar fjórir flokkar koma saman þurfa allir að gefa eitthvað eftir, ég held að það liggi í augum uppi,“ segir Einar en bætir við að flokkarnir séu ekki enn byrjaðir að ræða stefnumál sín á milli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert