Aldís segir útlit fyrir bætur upp á 108 milljónir

Hamarshöllin eins og hún var fyrir óveðrið.
Hamarshöllin eins og hún var fyrir óveðrið. Ljósmynd/Verkís

Aldís Hafsteinsdóttir, fráfarandi bæjarstjóri í Hveragerði, gerir ráð fyrir því að bætur vegna falls Hamarshallarinnar verði um 108 milljónir króna. Íþróttahöllin féll í óveðri í byrjun árs. Aldís segir að ákvörðun um endurreisn hallarinnar hafi reynst umdeild og að framtíð hallarinnar sé í höndum nýs meirihluta. 

„Sú ákvörðun að panta nú þegar nýjan dúk á Hamarshöllina í stað þess sem rifnaði í óveðri í febrúar var afar umdeild,“ skrifar Aldís í pistli á heimasíðu Hveragerðisbæjar.

Meirihluti hennar féll í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru fyrir um tveimur vikum síðan.

„Í ljósi niðurstöðu kosninga og þeirrar miklu umræðu sem fram fór hefur bæjarstjóri átt viðræður við forsvarsmenn Duol sem sýna munu því ríkan skilning ef að nýr meirihluti vill afpanta dúkinn. Því er ljóst að nýr meirihluti ætti ekki að vera bundinn af fyrri ákvörðun og getur því tekið ákvörðun fljótlega um að hefja viðræður um afpöntun á dúk Hamarshallarinnar og hafið samstundis könnun á öðrum valkostum varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hveragerði.“

Frá Hveragerði, þar sem Hamarshöllin var.
Frá Hveragerði, þar sem Hamarshöllin var. Ljósmynd/Friðrik Sigurbjörnsson

Dúkurinn kostar um 88 milljónir

Aldís segir að ákvörðun um endurreisn Hamarshallarinnar hafi verið tekin með hagsmuni íþróttalífs í Hveragerði í huga. 

„Og þá ekki síst hagsmuni barna og ungmenna enda endurreisn Hamarshallarinnar, að mati meirihlutans, skynsamleg og hagstæð leið til að koma upp góðri íþróttaaðstöðu bæði hratt og með hagkvæmum hætti,“ skrifar Aldís sem getur þess að tilboðið frá fyrirtækinu Duol um sterkari dúk nemi um 88 milljónum króna. 

Jafnframt er rétt að geta þess að fyrstu tölur hafa borist varðandi tjónabætur og er þar gert ráð fyrir að bætur nemi 108 m.kr..   Samningar um endanlegar tjónabætur bíða aftur á móti nýrrar bæjarstjórnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert