Mikil vonbrigði að Framsókn sé ekki með

Frá Akureyri.
Frá Akureyri. Morgunblaðið/Sigurður Bogi Sævarsson

Ekki kemur á óvart hversu stuttan tíma meirihlutaviðræður L-listans, Miðflokks og Sjálfstæðisflokks tóku og það eru vonbrigði að rödd Framsóknarflokksins heyrist ekki í nýjum meirihluta. Þetta segir Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri í samtali við mbl.is.

Tilkynnt var fyrr í dag að nýr meiri­hluti hafi verið myndaður á Ak­ur­eyri eft­ir að viðræðum var slitið á milli Sam­fylk­ing­ar, Fram­sókn­ar, Sjálf­stæðis­flokks og Miðflokks í fyrra­dag. Sam­fylk­ing­in sleit þeim viðræðum en áður höfðu Fram­sókn og Sjálf­stæðis­flokk­ur slitið viðræðum við Bæj­arlist­ann.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir. Ljósmynd/ af vef Framsóknarflokksins

Sunna Hlín segir Framsókn hafa sterka tenginu í landspólitíkina og það skipti miklu máli þegar myndaður er meirihluti. 

Mikil vonbrigði

„Það eru mikil vonbrigði að Framsóknarflokkurinn sé ekki í meirihluta á næsta kjörtímabili þar sem flokkurinn hefur góða tengingu við Alþingi og hefur sterk ráðuneyti á bakvið sig, við teljum það mikilvægt,“ segir Sunna Hlín.

Spurð hvort henni þyki svekkjandi að taka ekki þátt í þessum meirihluta þar sem allt séu þetta flokkar sem Framsókn hafi átt í viðræðum við eftir kosningar segir Sunna: „Nei ekkert endilega svekkelsi að vera ekki í þessum meirihluta, heldur frekar vonbrigði að flokkur eins og Framsókn, með sterka tengingu við þingið sem hefði komið sér vel fyrir bæinn og byggðarsjónarmið almennt fái ekki að taka þátt í meirihluta.“

Samningurinn ekki tilbúinn

Málefnasamningur nýs meirihluta hefur ekki verið kynntur þrátt fyrir að flokkarnir hafi komið sér saman um að mynda meirihluta á komandi kjörtímabili.

Sunna birti færslu á Facebook þar sem hún tjáir sig um nýjan meirihluta sem hægt er að lesa í heild hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka