Húsnæðismál voru til umræðu hjá oddvitum og þeim sem skipuðu annað sæti á framboðslistum Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar í Reykjavík á sjöunda fundi þeirra um meirihlutamyndun.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, segir í samtali við mbl.is að ýmis álitaefni hafi þurft að ræða varðandi húsnæðismálin en hún hafi fullra trú á að lending náist í þeim.
Spurð sérstaklega, hvort að kosningaloforð Framsóknar um hraðari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Keldnalandinu hafi komið til tal, segir Dóra Björt svo vera. Hún segir þó ekki tímabært að ræða neina lendingu í því.
Píratar hafa gefið sig út fyrir að hafa harðasta þéttingastefnu flokkanna sem buðu fram í Reykjavík í vor.
Dóra Björt segir að stóra myndin hafi verið rædd í húsnæðismálum og gerir hún ráð fyrir að klára fyrsta gegnumganginn í umræðu um þau í dag „en ekkert er fast í prenti fyrr en blekið þornar“.
Önnur málefni sem rædd voru í dag á meðal forystufólks flokkanna voru mannréttindamál og velferðamál.
Spurð hvort að áherslur Pírata um nýtt neyðarskýli fyrir heimilislausar konur hafi verið rætt svarar Dóra Björt því játandi.
„Ég hef fulla trú á því að þetta samtal muni ganga sæmilega áfram og ég vona að við náum að klára fyrir 7. júní en mikilvægast er að allir verði sáttir við útkomuna.“
Dóra Björt vildi ekki svara því hvort að rætt hafi verið að Reykjavíkurborg myndi falla frá lögsókn á hendur sveitarstjórnarráðuneytinu, ráðuneyti formanns Framsóknarflokksins.