Björn Bjarki Þorsteinsson hefur verið ráðinn nýr sveitarstjóri Dalabyggðar. Hann var ekki á meðal þeirra þrettán sem sóttu upphaflega um starfið.
Byggðarráð Dalabyggðar hafnaði öllum umsóknunum eftir að hafa lokið úrvinnslu þeirra. Í samráði við Hagvang var haft samband við nokkra aðila sem voru á skrá ráðningarstofunnar og kæmu til greina sem næsti sveitarstjóri.
Að því loknu var samið við Björn Bjarka um starfið og var ráðningarsamningurinn samþykktur samhljóða á fundi byggðarráðs fyrr í dag, sem fól oddvita að undirrita ráðningarsamninginn fyrir hönd sveitarfélagsins.
Björn Bjarki hefur helgað sig öldrunarmálum síðustu 15 árin en hætti í apríl sem formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Hann mun einnig láta af störfum sem framkvæmdastjóri Brákarhlíðar í Borgarnesi um leið og nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn.
„Þetta leggst vel í mig. Það er sóknarhugur í Dalamönnum og sveitarstjórnin er samheldin. Hérna er annað landslag, eða persónukjör, og því er ég ekki að vinna með meirihluta heldur sveitarstjórninni allri og ég vonast til að þetta verði farsælt og gott samstarf,“ segir Björn Bjarki í samtali við mbl.is.
Hann segir ráðninguna hafa borið brátt að en kveðst þakklátur fyrir tækifærið og er spenntur fyrir því að starfa í þágu Dalabyggðar og íbúanna þar.
Umsækjendur um stöðuna voru í stafrófsröð:
Ari Jóhann Sigurðsson, sérkennari
Barbara K. Kristjánsdóttir,mannauðs- og gæðastjóri
Glúmur Baldvinsson, eigin rekstur
Gunnsteinn Björnsson, sjálfstætt starfandi
Hróðmar Dofri Hermannsson, framkvæmdastjóri
Ingvi Már Guðnason, verkstjóri
Jón Eggert Guðmundsson, yfirmaður kerfismála
Konráð Gylfason, framkvæmdastjóri
Sigurður Sigurðarson, sjálfstætt starfandi
Viggó E. Viðarsson, flokksstjóri
Örn Haukur Magnússon, framkvæmdastjóri