Baldur hefur ekki áhyggjur

Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi.
Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi. mbl.is/María Matthíasdóttir

Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi hefur ekki áhyggjur á fylgislækkun í nýjustu skoðanakönnun Prósents, sem var gerð fyrir Morgunblaðið og mbl.is. Þetta segir hann í samtali við mbl.is aðspurður hvort hann lesi eitthvað út í þessa fylgislækkun.

„Fylgið virðist vera á nokkru flökti og ég er bara þakklátur fyrir þann stuðning sem ég hef“.

Þá nefnir hann að margir séu enn að gera upp hug sinn hvern þeir hyggjast kjósa og enn sé nóg eftir af kosningabaráttunni. Hann segist spenntur að hitta meðframbjóðendur sína í næstu kappræðum og að enn getur allt gerst.

Skynja mikla hlýju og stuðning

Baldur og Felix hafa verið á ferð um allt land þar sem Baldur segir að mikil stemning sé á kosningafundunum og að þar sé fullt hús nær allstaðar. Þeir eru ekki hættir ferðum sínum og halda áfram á næstu vikum.

„Við skynjum bara mikla hlýju, væntumþykju og stuðning og erum bara gríðarlega þakklátir fyrir það og ætlum að halda áfram á þessari braut, ég er bara bjartsýnn á framhaldið“

Þá kveðst Baldur einkum spenntur að mæta á forsetafund á vegum Morgunblaðsins og mbl.is á Selfossi á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert