Jón hefur engar áhyggjur

Jón Gnarr forsetaframbjóðandi.
Jón Gnarr forsetaframbjóðandi. mbl.is/Arnþór

„Ég er gríðarlega ánægður, mér finnst þetta bara stuð og stemning,“ segir Jón Gnarr forsetaframbjóðandi í samtali við mbl.is þegar hann er spurður út í hvernig nýjasta skoðanakönnun Prósents, sem var gerð fyrir Morgunblaðið og mbl.is, leggst í hann.

Jón kveðst ekki hafa áhyggjur af fylgislækkuninni, fylgið sé á mikilli hreyfingu og að nóg sé eftir af kosningabaráttunni. Fylgi Jóns lækkar úr 14,7 prósent í 13,8 prósent.

Hefur baráttuna af fullum krafti

„Það er enn þá tiltölulega langt í kosningarnar, sumir hafa verið að nota þá taktík að nota langa og kraftmikla baráttu, en ég veit ekki hvort það sé að skila tilætluðum árangri. Ég er meira með styttri baráttu og er í rauninni í síðustu viku að byrja baráttuna mína af fullum krafti.“ 

Jón kveðst vera nýbyrjaður að fara út á land þar sem hann finni fyrir miklum stuðningi.

Þá segist hann hafa verið heppinn með veður og að veðurguðirnir séu með honum í liði í kosningabaráttunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert