„Ætlum að sigla framboðinu í land“

Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi á forsetafundi á Selfossi.
Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi á forsetafundi á Selfossi. mbl.is/Brynjólfur Löve

„Þetta er mjög lítill munur á okkur fjórum, ekki marktækur í mörgum tilfellum. Við höfum fulla trú á að geta siglt skútunni í land,“ segir Baldur Þórhallsson, forsetaframbjóðandi og stjórnmálafræðingur, spurður um fylgi hans í nýjustu könnun Prósents fyrir Morgunblaðið.

Fylgi Baldurs hefur dalað aðeins síðustu vikur en í nýjustu könnuninni er það nú komið niður í 16,9 prósent. Í liðinni viku mældist það 18,2 prósent en þá var hann í þriðja sæti.

Halla Hrund Logadóttir, Halla Tómasdóttir og Katrín Jakobsdóttir mældust á sama tíma hnífjafnar í forystu kosningabaráttunnar með rúmlega 20 prósenta fylgi hver. Baldur fylgir þar á eftir.

„Mikil stemning og gleði í hópnum“

„Við erum full bjartsýni og hlökkum til daganna fram að kosningum. Það var troðfullt út úr dyrum hér á kosningamiðstöðinni hjá okkur í gær og mikil stemning. Mikil stemning og gleði í hópnum og við ætlum bara að sigla framboðinu í land á laugardaginn,“ segir Baldur í samtali við mbl.is.

Baldur segir síðustu viku kosningabaráttunnar leggjast mjög vel í sig. Hann nefnir kappræður, viðtöl og fyrirtækjaheimsóknir sem dæmi um verkefni fram að kjördegi.

„Það verður spennandi að hitta meðframbjóðendurna mína í að minnsta kosti fjórum kappræðum.“

Viðsjárverðir tímar í alþjóðamálum

Baldur kveðst munu halda áfram að leggja áherslu á þau málefni sem hann telur brýn:

„Ég hef fulla trú á því að Ísland geti staðið fremst meðal þjóða þegar kemur að málefnum barna og ungmenna. Við viljum vinna að því að öll á Íslandi geti notið þeirra tækifæra sem þetta góða samfélag býður upp á,“ segir hann en nefnir einnig málefni á borð við nýtingu auðlinda og að gera land og þjóð að einni heild.

„Við lifum á viðsjárverðum tímum í alþjóðamálum. Það hefur ekki verið svona vandasamt að vera lítið smáríki eins og Ísland í áratugi,“ segir Baldur. Því væri mjög gott að hafa alþjóðastjórnmálafræðing og sérfræðing í smáríkjum á Bessastöðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert