Kvikmyndagerðarmaðurinn Bjarki Jóhannsson segir að myndskeið í auglýsingu Höllu Hrundar Logadóttur forsetaframbjóðanda sé notað í leyfisleysi og án þess að greiðsla hafi komið fyrir. Hins vegar hafi Orkustofnun áður notað myndskeiðið og greitt fyrir.
Myndskeiðið var notað í kynningarmyndbandi Höllu í sjónvarpi Ríkisútvarpsins og hefur Bjarki nú beðið RÚV um að taka auglýsinguna úr dreifingu, þar sem auglýsingin er enn uppi á vef RÚV, á meðan hann leitar réttar síns.
Bjarki er sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarmaður og segir hann í samtali við mbl.is að um sé að ræða höfundaréttarbrot. Hann er stuðningsmaður Baldurs Þórhallssonar forsetaframbjóðanda og hefur tekið að sér myndbandsverkefni fyrir framboð hans. Bjarki kveðst hafa fengið ábendingar um að myndskeið í auglýsingu sem hann hafði gert fyrir Baldur væri einnig að finna í auglýsingu Höllu Hrundar.
„Ég varð nokkuð hissa því ég vissi ekki til þess að neinn hefði keypt þessa klippu á þessu ári. Klippuna, sem er loftmynd af Reykjanesvirkjun, hef ég ekki selt á þessu ári til neins kaupanda, en ég veit að Orkustofnun notaði þessa klippu á netinu í fyrra með fullu leyfi og ég fékk greitt fyrir þau afnot,“ segir hann.
Eins og kunnugt er þá er Halla Hrund orkumálastjóri en fór í leyfi eftir að hún lýsti yfir forsetaframboði. Myndskeiðið sem hún notar nú í leyfisleysi í kosningaauglýsingu er sama myndskeið og notað var í auglýsingu hjá Orkustofnun, líkt og sjá má hér að ofan.
„Það er þannig að þó svo að Orkustofnun hafi haft leyfi fyrir efni í myndband í fyrra, þá gildir það leyfi ekki fyrir forsetaframbjóðanda á þessu ári,“ segir Bjarki.
Bjarki nefnir að aukinheldur sé myndskeiðið hans sem um ræðir ekki með sýningarrétt fyrir sjónvarp, en eins og fyrr segir þá birtist kynningarmyndband Höllu í sjónvarpi RÚV.
Bjarki hefur sent RÚV beiðni um að auglýsing Höllu Hrundar verði fjarlægð af vefnum á meðan hann leitar réttar síns varðandi stuldinn.
„Það skiptir mig miklu máli að fá greitt fyrir mína vinnu. Manni sárnar að forsetaframbjóðandi hagi sér með þessum hætti. Það er ekki svo auðvelt að lifa af því að vera sjálfstæður í kvikmyndagerð. Maður hefur alveg lent í því að myndefni hafi verið stolið frá manni en ekki hugsanlegur forseti Íslands,“ segir hann.
Bjarki hvetur aðra kollega sína í stéttinni til að fylgjast betur með svona málum.
„Höfundarréttur skiptir okkur miklu máli. Það er hann sem borgar launin okkar,“ segir Bjarki að lokum.