„Sókn fram undan“

Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi er í forystu nýjustu könnunar Prósents …
Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi er í forystu nýjustu könnunar Prósents fyrir Morgunblaðið. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég finn að erindi mitt um auðlindamál er að heyrast og ég mun tala hærra og skýrar,“ segir Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi innt eftir viðbrögðum við nýjustu skoðanakönnun Prósents fyrir Morgunblaðið sem birt var í dag.

Fylgi Höllu Hrundar hefur aukist lítillega frá síðustu könnun Prósents. Það mældist 19,7 prósent í liðinni viku en nú er hún aftur komin í forystu með 21,0 prósent fylgi.

Fylgi Höllu Tómasdóttur hefur aukist síðustu vikur á meðan fylgi Katrínar Jakobsdóttur hefur haldist fremur stöðugt. Konurnar þrjár eru hnífjafnar í nýjustu könnuninni en minna en eitt prósent fylgi skilur á milli þeirra.

„Þetta verður líf og fjör og gleði"

Halla Hrund segir síðustu viku kosningabaráttunnar leggjast rosalega vel í sig. „Aldrei verið meiri kraftur, sókn fram undan,“ segir forsetaframbjóðandinn. „Það verður líf og fjör og gleði,“ bætir hún við.

Innt eftir því hvað hún hafi í bakhöndinni til að skara fram úr, þar sem baráttan sé svo jöfn, segir Halla Hrund:

„Ég mun sannarlega nýta næstu daga til að tala hærra og skýrar og halda áfram að vinna með frábæru stuðningsfólki,“ segir hún.

Vildi að kosningabaráttan væri lengri

Halla segist einnig vilja að kosningabaráttan væri ennþá lengri því það séu svo margir staðir sem henni þyki vænt um sem hún komist ekki yfir að heimsækja, eins og til dæmis Höfn og Skagaströnd.

„Ég held að núna á síðustu metrunum haldi maður áfram að hvetja fólk til að taka þátt í þessu samtali og ég mun gera það með bjartsýni, gleði og samtakamátt. Því saman getum við allt,“ segir Halla Hrund.

Hún bætir við að hún sé mjög þakklát fyrir ólíkan stuðning fólks. „Allt fólkið sem er að vinna nótt sem dag í sjálfboðavinnu, það er akkúrat það sem framboðið stendur fyrir, að við séum að taka þátt og leggja okkar af mörkum fyrir samfélagið,“ segir Halla Hrund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert