„Þetta er búið að vera algjör lýðræðisveisla“

Frá vinstri: Amna Hasicic, Inga María Hjartardóttir og Kristjana Björk …
Frá vinstri: Amna Hasicic, Inga María Hjartardóttir og Kristjana Björk Barðdal mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í dag ganga landsmenn að kjörborðinu og kjósa sjöunda forseta lýðveldisins. Mbl.is hitti nokkra kjósendur á kjörstað í Fossvogsskóla og ræddi við þá um kosningabaráttuna og ákvörðunina um hvern þau skyldu að kjósa. 

Þær Amna Hasicic, Inga María Hjartardóttir og Kristjana Björk Barðdal voru staðfastar í hver fengi þeirra atkvæði í dag og eru spenntar fyrir kvöldinu. 

Hvernig fannst ykkur að taka ákvörðun um hvern þið ætlið að kjósa?

„Mjög auðvelt að taka ákvörðun. Við vorum búnar að taka ákvörðun mjög snemma í ferlinu, um leið og viðkomandi aðili bauð sig fram þá vorum við alveg vissar."

Var einhver annar frambjóðandi sem kom til greina eftir kappræðurnar?

Fyrstu kappræðurnar staðfestu algjörlega, ef það voru einhverjar efasemdir þá staðfestu kappræðurnar alveg [ákvörðunina],“ segir Kristjana Björk.

Inga María tekur undir með henni en segir: „Það voru samt alveg aðrir sem komu líka skemmtilega á óvart, sem maður hefði alveg hugsað sér að kjósa ef að okkar frambjóðandi hefði ekki verið í framboði.“

Fagna því að þrjár konur séu í efstu sætunum

Þær fagna því að efstu fjórir frambjóðendurnir séu þrjár konur og samkynhneigður karlmaður. 

„Það er æðisleg staða að vera í og okkur finnst þetta svo sjálfsagt, þetta er búið að vera algjör lýðræðisveisla.“

Eru þið að fara í eitthvað kosningapartý í kvöld?

„Heldur betur, við erum að halda eitt slíkt í kvöld og erum mjög spenntar.“

Harðákveðinn frá því að Katrín bauð sig fram

Hjónin Smári Hilmarsson og Jóhanna Marteinsdóttir komu hjólandi á kjörstað og höfðu þegar tekið ákvörðun um hver fengi þeirra atkvæði.

Smári Hilmarson og Jóhanna Marteinsdóttir hjóluðu að kjörstað í dag.
Smári Hilmarson og Jóhanna Marteinsdóttir hjóluðu að kjörstað í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvernig lýst ykkur á þá sem eru í framboði? 

„Bara vel, já já, þetta er fjölbreyttur mannskapur og nóg úr að velja og mér líst allavega vel á það,“ segir Jóhanna.

Aðspurð hvort að ákvörðunin um hvern skyldi kjósa hafi verið erfið svarar Smári að honum hafi fundist ákvörðunin auðveld, hann hafi tekið ákvörðun um leið og hans frambjóðandi bauð sig fram. 

Jóhanna var ekki eins viss og tók ákvörðun eftir kappræður Ríkisútvarpsins í gær. 

Kom einhver annar til greina þegar þú horfðir á kappræðurnar?

„Nei, ég var alveg harðákveðinn frá upphafi,“ sagði Smári 

Viltu gefa það upp hvern þú kaust? 

„Já, ég kaus Kötu,“ sagði Smári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert