„Íslenski draumur“ Miðflokksins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins kynnti kosningaáherslur þeirra í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins kynnti kosningaáherslur þeirra í dag. Ólafur Árdal

Miðflokkurinn hyggst „koma böndum á stjórnleysið sem ríkir á landamærunum og skrifa ný útlendingalög frá grunni“. Enginn á að koma til Íslands í leit að hæli að mati flokksins.

Miðflokkurinn kynnti kosningaáherslur sínar fyrir komandi alþingiskosningar í kosningamiðstöð sinni í Ármúla í dag.

Þá vill flokkurinn einnig leggja áherslu á húsnæðismál og endurreisa séreignastefnuna. Miðflokksmenn hyggjast kynna aðgerðaráætlun undir nafninu „íslenski draumurinn“ – aðgerðir sem tryggja að allir hafi tækifæri til að eignast eigið húsnæði.

Frá vinstri: Karl Gauti Hjaltason, Ingibjörg Davíðsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, …
Frá vinstri: Karl Gauti Hjaltason, Ingibjörg Davíðsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigríður Á. Andersenm, Bergþór Ólason og Snorri Másson. Ólafur Árdal

Almenningur fái sinn eignarhlut í Íslandsbanka 

Er kemur að fjármálakerfinu kveðast miðflokksmenn vilja afhenda raunverulegum eigendum Íslandsbanka, íslenskum almenningi, sinn eignarhlut í bankanum beint til eigin ráðstöfunar - þó ekki erlendum ríkisborgurum búsettum hér á landi.

Þá vill flokkurinn stöðva „óráðsíu í ríkisrekstri“ með því að spara og lækka skatta, ýta undir einkaframtakið og verðmætasköpun í landinu og hætta kostnaðarsömum ríkisaðgerðum sem engu skili.

Ingibjörg og Bergþór stilla sér upp fyrir sjálfu.
Ingibjörg og Bergþór stilla sér upp fyrir sjálfu. Ólafur Árdal

Sundabraut í forgang

Hvað samgöngumál varðar hafnar flokkurinn alfarið hugmyndum um Borgarlínu eins og þær liggja fyrir. Sundabraut eigi aftur á móti að setja í algjöran forgang til að framkvæmdir geti hafist sem fyrst.

Staða þjóðvegakerfisins sé orðin grafalvarleg vegna viðvarandi viðhaldsleysis og því vilja Miðflokksmenn bregðast við og framkvæma hið fyrsta.

Orkumálin verða einnig eitt áherslumála Miðflokksins sem segir aðgengi að nægu rafmagni á hagstæðu verði vera eina meginforsendu verðmætasköpunar á Íslandi. Tími sé kominn til að rjúfa kyrrstöðu síðustu ára í orkumálum og setja sérlög um virkjanakosti í nýtingarflokki rammaáætlunar.

Áherslurnar voru kynntar á kosningaskrifstofu flokksins í Ármúla.
Áherslurnar voru kynntar á kosningaskrifstofu flokksins í Ármúla. Ólafur Árdal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka