Efnahagsmálin eru tvímælalaust helsta viðfangsefni þessara kosninga, segir Björn Leví Gunnarsson, oddviti Pírata í Reykjavík suður. Þar séu húsnæðismálin brýnasta úrlausnarefnið.
„Við þurfum meira húsnæði. Það þarf í rauninni að fara í bráðabirgðauppbyggingu á einingahúsnæði og samhliða því að tryggja langtímauppbyggingu,“ segir Björn og telur að með þeim hætti megi leysa brýnasta vandann á einu ári.
Hins vegar séu ýmis undirliggjandi vandamál, sem ekki verði leyst í einu vetfangi, en taka verði skref í þá átt. Til dæmis um það nefnir hann vaxtamálin, sem Píratar reki til óstöðugs gjaldmiðils.
Hefja verði athugun á því hvernig megi gera hann stöðugri, en í því samhengi nefnir hann leiðir á borð við tengingar gjaldmiðilsins við evru eða myntkörfu helstu viðskiptamynta. Það eitt hrökkvi þó ekki til, og nefnir hann m.a. að koma þurfi verðtryggingunni fyrir kattarnef.
Á næstu dögum birtast á mbl.is viðtöl við alla oddvita framboða í öllum kjördæmum landsins.