Þorgrímur Sigmundsson, sem skipar annað sæti á lista Miðflokksins, segir að fólk og fyrirtæki á landsbyggðinni sem eru lengra frá opinberri þjónustu eigi að borga lægri skatta.
Hann segir að Norðmenn séu með svipað kerfi við lýði og því sé Miðflokkurinn ekki að finna upp hjólið í þessu samhengi. Spurður hvort þetta sé sanngjarnt segir hann:
„Það er enginn vafi í mínum huga enda miklu dýrara fyrir þann sem býr á Langanesi eða niðri á Djúpavogi eða hvar sem hann býr að sækja sér þá þjónustu sem skattarnir hans standa undir.“
Hann segir að óháð því við hvern hann ræði þá séu vextir og verðbólga það sem brenni mest á fólki og því þurfi að koma böndum á ríkisfjármálin. Þá segir hann flokkinn standa með uppbyggingu fiskeldis í kjördæminu en vill að greinin sæti ströngu eftirliti.