Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, var nýlega gestur í útvarpsþættinum Ísland vaknar hjá Bolla Má og Þóri Bæring. Þar ræddi hún um daglegt líf sitt og líðan í miðri kosningabaráttu, en hún viðurkenndi að vera vön því að vakna snemma – bæði vegna lífsins á heimilinu með tvö ung börn undir sex ára aldri og þeirrar skipulagskröfu sem fylgir kosningavertíðinni.
„Það er nú ekkert annað í boði á þessu heimili,“ sagði Kristrún glettin.
Hún sagðist vera mjög sátt með gang mála í baráttunni, þrátt fyrir hraðan aðdraganda. „Mér lýst bara mjög vel á þetta. Þetta er búið að vera hratt og aðdragandinn mjög skammur,“ sagði hún. Kristrún viðurkenndi að það hefði vissulega áhrif á taktinn, en hún fyndi nú þegar fyrir því að verið væri að síga á seinni hlutann.
Kristrún var spurð út í þau óhefðbundnu verkefni sem stjórnmálafólk lendir oft í á kosningatímabili. Þar hefur hún verið engin undantekning og deildi hún nokkrum eftirminnilegum upplifunum. „Það er endalaust verið að plata mann í alls konar verkefni,“ sagði hún og nefndi að það að spila skotleik í beinni útsendingu hafi verið eitt það skemmtilegasta sem hún hafi gert í baráttunni.
„Þó að ég hafi kannski ekki staðið mig neitt rosalega vel í þessum leik,“ bætti hún við hlæjandi en viðurkenndi að hún muni ekki einu sinni hvað leikurinn hét.
„Ég er búin að gera alls konar. Ég má náttúrulega ekki segja frá því þar sem það á eftir að sýna það … en það er verið að láta mann borða alls konar, klæða sig í alls konar búninga, syngja og ég veit ekki hvað og hvað,“ sagði hún glettin.
Þrátt fyrir álagið sagðist Kristrún ekki vera farin að bugast. „Maður verður að vera nokkuð æðrulaus í þessu starfi. Þegar maður lendir í svona stöðu eins og núna, þegar það eru svona hraðar kosningar, þá verður maður bara að taka einn dag í einu. Þá vaknar maður á morgnana, kíkir á dagatalið og hugsar: Jæja, hvað er ég að fara að gera í dag?“
Hún minnti jafnframt á að Alþingi væri enn í fullum gangi, þrátt fyrir allt það sem fylgir kosningabaráttunni.
Þegar spurt var út í mataræðið á þessum annasama tíma, sagði Kristrún spurninguna vera „ósanngjarna“, sem vakti mikinn hlátur í hljóðverinu.
„Það er hræðilegt. Það er mikið fljótandi fæði og mikið af alls konar kaffidrykkjum, „smoothies“ og orkudrykkjum,“ sagði hún hlæjandi.
Hún bætti þó við að hún væri heppin með stuðning en besta vinkona hennar, Elín, er eins konar aðstoðarkona hennar á meðan á kostningarbaráttunni stendur.
„Hún Elín, besta vinkona mín, ákvað að taka sér frí frá vinnu til að vera mér til halds og trausts á meðan á kosningabaráttunni stendur. Hún passar upp á að ég fái pásu og fái að borða,“ sagði hún og þakkaði vinkonunni innilega fyrir hjálpina.
Hér fyrir neðan má hlusta á viðtalið við Kristrúnu.