Kristrún Frosta flækir ekki málin fyrir kappræður

Kristrún Frostadóttir hefur líklega fengið sér léttan hádegismat.
Kristrún Frostadóttir hefur líklega fengið sér léttan hádegismat. mbl.is/Hallur Már

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, er mikill aðdáandi mataræðis sem hún kallar „frjálst,“ sérstaklega um þessar mundir. Börnin hennar eru einnig mjög hrifin af því, og eldri dóttir hennar, María, fann upp nafnið.

Hún segir að slíkt mataræði sé auk þess afar hentugt þegar mikið stendur til, eins og í kosningabaráttunni og fyrir kappræður.

„Það er jógúrt, slátur, ber og epli. Bara allt sem er til í ísskápnum,“ sagði Kristrún í samtali við Skemmtilegri leiðina heim á K100 í vikunni. Bæði börn hennar eru á leikskólaaldri og eru afar ánægð með kvöldmatarvalið.

„Þó þær borði ýmislegt, eru þær báðar að borða heitan mat í hádeginu og dýrka að fá eitthvað svona „frjálst,““ sagði Kristrún og bætti við: „Fyrir utan það, skal ég alveg viðurkenna að það hefur verið svo brjálað að gera að það er enginn tími til að elda neitt á heimilinu í þessari kosningabaráttu.“

Hún bætti við: „Ég hef alveg áttað mig á því að stundum hefur maður rosalega mikið fyrir matnum, en svo finnst þeim þetta vera langmerkilegast.“

Líður best eftir einfalda og létta máltíð

Ofan á þetta sagði hún að oft væri best að fá sér eitthvað létt og einfalt þegar mikið er um að vera, eins og fyrir kappræður.

„Ekki vera að flækja málin. Manni líður best af því,“ sagði Kristrún, sem lýsir alþingiskosningunum sem sögulegum.

Kristrún kemur að sjálfsögðu fram í kappræðum Spursmála kl. 14:00 í dag – og má því gera ráð fyrir að hún hafi fengið sér eitthvað „frjálst“ í hádegisverð. Fylgist með hér að neðan.

Í spilaranum hér að neðan má svo hlusta á spjallið við Kristrúnu Frostadóttur í liðnum „Hvað er ætlar fræga fólkið að borða í kvöld“, í Skemmtilegri leiðinni heim með þeim Regínu Ósk, Jóni Axel og Ásgeiri Páli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert