Fréttaskýring: Prófkjörskjálftinn í Kraganum

Hluti Kragans - Garðbær og Kópavogur.
Hluti Kragans - Garðbær og Kópavogur. www.mats.is

Nú liggur fyrir í stórum dráttum hverjir muni gefa kost á sér í prófkjörum og forvali flokkanna sem hafa þann háttinn á til að velja á lista.  Víða er útlit fyrir harða kosningabaráttu og næstu daga verður þess freistað að fara yfir stöðuna í hverju kjördæmi fyrir sig. Í fyrstu atrennu verður horft til Suðvesturkjördæmis eða Kragans eins og kjördæmið er stundum kallað vegna þess að helstu bæjarfélögin sem það mynda umlykja höfuðborgina. Úrslit eru færð inn eftir því sem þau berast.

Framsókn:

Flokkurinn er þar með einn alþingismann, Siv Friðleifsdóttur, sem fyrst var kjörinn á þing 1995 og er nú formaður þingflokks framsóknarmanna. Siv hefur einnig verið ráðherra umhverfismála og heilbrigðis- og tryggingamála. Hún er því ótvírætt reynslumest allra þeirra sem nú eru í framboði fyrir Framsóknarflokkinn og þó það eigi að vera hennar helsta tromp er það um leið hennar helsti veikleiki vegna kröfunnar um mikla endurnýjun í forystuliði flokkanna.

Siv hefur löngum mátt sæta því að ókyrrð hafi verið í kringum hana og þingsæti hennar, og kann það að einhverju leyti að stafa af því að Siv kemur úr fremur litlu bæjarfélagi, Seltjarnarnesi, og forustusveit helsta vígis framsóknarmanna í Kraganum, Kópavogs, hefur ef til vill talið sig eiga frekara tilkall til þingsætisins.

Siv hefur hingað til staðið af sér allar atlögur en í þetta sinn verður að henni sótt af annarri þingkonu, Helgu Sigrúnu Harðardóttur, sem gefur einnig kost á sér í 1. sætið í prófkjörinu sem fram fer nk. laugardag. Helga Sigrún er búsett utan kjördæmisins, þ.e. í Reykjavík, en var síðast í 3ja sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi sem fulltrúi fyrir Suðurnesin, en lenti óvænt inn á þingi þegar Bjarni Harðarson sagði af sér. Ætla má að hún njóti stuðnings þeirra framsóknarmanna í kjördæminu sem lengi hafa haft horn í síðu Sivjar.

Auk Sivjar og Helgu Sigrúnar býður Kristján Jósteinsson, Kópavogi, sig fram í 1.-2. sæti, en nokkuð ljóst má verða að slagurinn stendur milli þingkvennanna.

Þegar öll atkvæði höfðu verið talin í prófkjörinu í Suðvesturkjördæmi, reyndust hafa verið greidd 1068 atkvæði. 1020 atkvæði voru gild en 48 atkvæði voru ógild.

Staða fimm efstu frambjóðenda var þessi eftir að öll atkvæði höfðu verið talin:

Siv Friðleifsdóttir          498 atkvæði í 1. sæti
Helga Sigrún Harðardóttir     433 atkvæði í 1.-2. sæti
Una María Óskarsdóttir        494 atkvæði í 1.-3. sæti
Bryndís Bjarnarson        439 atkvæði í 1.-4. sæti
Svala Rún Sigurðardóttir    510 atkvæði í 1.-5. sæti

Sérstök athygli er vakin á ákvæði um jafnrétti kynjanna í reglum prófkjörsins:  „Til að tryggja jafnræði kynjanna á framboðslista skal tryggt að í efstu 3 sætum listans sé að lágmarki 1 af öðru kyninu og að í efstu 5 sætum séu að lágmarki 2 af öðru kyninu. Kjörnefnd skal færa upp þann frambjóðanda af viðkomandi kyni sem næstur er í sæti og þann frambjóðanda af viðkomandi kyni sem næstur stendur 5 sæti listans sé þörf á því við uppröðun listans.“

Eftir að tillit hefur verið tekið til ákvæða í reglum prófkjörsins um jafnrétti kynjanna, þá er lokaniðurstaða þessi:

1.    sæti    Siv Friðleifsdóttir
2.    sæti    Helga Sigrún Harðardóttir
3.    sæti    Gestur Valgarðsson    með 332 atkvæði í 1.-3. sæti
4.    sæti    Una María Óskarsdóttir
5.    sæti    Styrmir Þorgilsson    með 414 atkvæði í 1.-5. sæti

Samfylkingin

Þar eru þau tíðindi helst að sá sem var efstur á lista Samfylkingar í síðustu kosningum, Gunnar Svavarsson, hefur ákveðið að draga sig í hlé. Eftir eru þá þrír alþingismenn sem áfram gefa kost á sér, Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, Katrín Júlíusdóttir og Árni Páll Árnason. 

Þórunn er þeirra reynslumest, kom fyrst á þing 1999, Katrín í næstu kosningum á eftir, árið 2003, en Árni í kosningunum 2007. Gunnar kom sömuleiðis inn á þing í þeim kosningum með afgerandi hætti. Hann hefur löngum verið talinn til svokallaðra Hafnarfjarðar-krata, einhvers helsta vígis jafnaðarmanna á landinu, var áður forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði og nú eru uppi háværar raddir um að þeir félagarnir og samherjarnir, Gunnar og Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri, ætli einfaldlega að hafa stólaskipti - Lúðvík sest á þing og Gunnar í bæjarstjórastólinn.

Strangt til tekið telst Lúðvík ekki til Hafnarfjarðar-kratanna því að hann kom til liðs við Samfylkinguna úr Alþýðubandalaginu en eftir því sem best er vitað hefur kratakjarninn í Hafnarfirði löngu tekið hann í sátt. Lúðvík verður því ekki árennilegur keppinautur fyrir þingmennina þrjá í prófkjörinu sem fram fer á netinu 12.-14. mars og fátt sem bendir til þess að hann muni ekki hreppa efsta sætið en Þórunn býður sig einnig fram í það sæti svo og Árni Páll sem jafnframt ætlar að etja kappi við Dag B. Eggertsson um varaformannsembættið. Katrín býður sig fram í 2. sætið þar sem hún fékk afgerandi stuðning í prófkjörinu fyrir síðustu kosningar og hélt þá Þórunni fyrir aftan sig.

Niðurstaðan að lokinni talningu í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi varð síðan þessi:

1. Árni Páll Árnason  1184  atkvæði í 1. sæti
2. Katrín Júlíusdóttir  1415 atkvæði í 1. - 2. sæti
3. Lúðvík Geirsson 1599 atkvæði í 1. – 3.sæti
4. Þórunn Sveinbjarnardóttir 1104 atkvæði í 1. – 4. sæti
5. Magnús Orri Schram 1287 atkvæði í 1. – 5.sæti
6. Magnús Norðdahl 1217 atkvæði í 1. – 6.sæti
 

Sjálfstæðisflokkur

Það kemur upp allsérstök staða í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kraganum. Þar mun baráttan um efsta sætið standa á milli helsta formannsefnis flokksins og varaformannsins, Bjarna Benediktssonar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, fyrrverandi menntamálaráðherra, sem sækist eftir að gegna varaformannsembættinu áfram.

Nú er Bjarni ekki orðinn formaður og úr því fæst ekki skorið fyrr en á landsfundinum 26.-29. mars nk. en einhverjir munu væntanlega finna að því að báðir forustumenn flokksins komi úr sama kjördæmi. Reyndar þótti það ekkert tiltökumál á árum áður en þá var kjördæmið Reykjavík og eftir síðustu kjördæmaskiptingu voru þeir Davíð sem formaður og Geir sem varaformaður hvor í sínu Reykjavíkur-kjördæminu. Hinu verður heldur ekki á móti mælt að Kraginn er eitthvert allra sterkasta vígi sjálfstæðismanna svo að ef til vill verður þetta ekki látið skipta máli þegar upp er staðið.

Á þessari stundu er allt útlit fyrir að Bjarni verði formaður flokksins og því kemur væntanlega ekkert annað til greina af hálfu sjálfstæðismanna en að hann hreppi fyrsta sætið í prófkjörinu - annað yrði að teljast nokkurt áfall fyrir verðandi formann og þá er rétt að hafa í huga að sjálfstæðismenn eru alla jafnan foringjahollir.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk sex þingmenn í Suðvesturkjördæmi í kosningunum 2007 og þá var Ragnheiður Ríkharðsdóttir síðust inn sem 12. þingmaður í kjördæmi , en Ragnheiður Elín Árnadóttir varð í 9. sæti. Þorgerður Katrín var þá í 1. sæti, Bjarni í 2. sæti, Ármann Kr. Ólafsson í 3. sæti og Jón Gunnarsson í 4. sæti. Öll eru þau áfram í framboði nema hvað nú færir Ragnheiður Elín sig í Suðurkjördæmi og býður sig þar fram í 1. sætið, en hún er borinn og barnfæddur Keflvíkingur þótt hún búi nú í Garðabæ.

Miðað við skoðanakannanir undanfarið getur brugðið til beggja átta með að flokkurinn haldi sjötta þingsætinu. Þetta kann að vera djarft teflt hjá Ragnheiði Elínu en getur líka verið snjall leikur þegar upp er staðið því að miðað við sömu skoðanakannanir og áður voru nefndar er Sjálfstæðisflokkurinn hvað sterkastur í Suðurkjördæmi um þessar mundir.

Lokatölur liggja fyrir í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi. Ekki urðu breytingar á röðun efstu manna á listann en Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, skaust á endasprettinum upp í 6. sæti listans og Ármann Kr. Ólafsson hafnaði í því sjöunda. Aðeins munaði fimm atkvæðum á þeim Ármanni og Rósu. Þá vantaði Ármann aðeins um 100 atkvæði til að ná Óla Birni í 5. sætinu.

Lokaröð frambjóðenda er því sem hér segir:

  1. Bjarni Benediktsson
  2. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
  3. Ragnheiður Ríkharðsdóttir
  4. Jón Gunnarsson
  5. Óli Björn Kárason
  6. Rósa Guðbjartsdóttir
  7. Ármann Kr. Ólafsson

Vinstri-græn

Í kosningunum 2007 fékk Ögmundur Jónasson ágæta kosningu í Kraganum, varð 6. þingmaður kjördæmisins, þótt lögheimili hans sé í Reykjavík.

Í þetta skipti býður annar Reykvíkingur, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sig fram í 1. sætið, ein af mörgum frambærilegum konum sem VG státar af um þessar mundir. Að hætti herramannsins víkur núverandi heilbrigðisráðherra úr sæti fyrir hana, býður sig fram í 2. sætið með þeirri hraustlegu yfirlýsingu að það verði baráttusætið. Miðað við síðustu skoðanakannanir er það ekkert fjarri lagi.

Ætla má því að þarna verði baráttan hörðust um 3. sætið og hugsanlegt varaþingmannsæti í forvalinu 14. mars nk. en þar eru 13 aðrir frambjóðendur í boði.

Úrslit í forvali Vinstri grænna í Suðvesturkjödæmi urðu þessi:

Á kjörskrá voru 1178, 738 greiddu atkvæði og voru 31 seðil ógíldur.

Í fyrsta sæti með 478 atkvæði lenti Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, í öðru sæti með 526 atkvæði lenti Ögmundur Jónasson. Í þriðja sæti var Ólafur Þór Gunnarsson með 216 atkvæði, í þriðja var Andrés Magnússon með 261 atkvæði, í því fimmta lenti Margrét Pétursdóttir með 290 atkvæði og í því sjötta var Ása Björk Ólafsdóttir með 227 atkvæði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent, Kosningar — Fleiri fréttir

Mánudaginn 18. nóvember

Laugardaginn 16. nóvember

Föstudaginn 15. nóvember

Þriðjudaginn 12. nóvember

Mánudaginn 11. nóvember

Sunnudaginn 10. nóvember

Laugardaginn 9. nóvember

Föstudaginn 8. nóvember

Laugardaginn 2. nóvember

Fimmtudaginn 31. október

Miðvikudaginn 30. október

Mánudaginn 28. október