Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Jóna Valgerður Kristjánsdóttir
Jóna Valgerður Kristjánsdóttir
formaður Landssambands eldri borgara og fyrrverandi þingkona

Jafnrétti alls staðar - Byrja á heimilinu

Ég fór fljótlega að hugsa um jafnréttismál þegar ég var unglingur og löngu áður en ég gat nýtt mér kosningaréttinn. Við vorum 9 systkini, 7 systur og 2 bræður. Í uppvextinum var alltaf talið sjálfsagt að við stelpurnar hjálpuðum til við heimilisstörfin en ekki bræðurnir. Þannig var auðvitað verkaskiptingin á heimilum á fyrri hluta 20. aldar og jafnvel lengur. Þáttaskil urðu að mínu mati með kvennafrídeginum 1975 og svo kosningu Vigdísar forseta.

Ég er alin upp við það að strákar áttu að mennta sig og bræður mínir voru hvattir til þess, en við systurnar síður. Við fengum í mesta lagi hvatningu um að fara í húsmæðraskóla, sem ég og gerði, og vissulega var þar margt vel gert til menntunar stúlkna og ekki bara til heimilisstarfa. Stúlkur áttu á árunum 1955-1965 að gifta sig, verða fyrirmyndar húsfreyjur og ala upp börnin sín. Fæstar konur unnu utan heimilis á þessum árum nema þá tímabundin hlutastörf og lágt launuð. Leikskólar voru ekki fyrir hendi.

Ég ól börnin mín upp í því að þau ættu að kunna til verka á heimilinu, óháð kyni. Það væri nauðsynlegt að allir gætu bjargað sér sjálfir og skylda að taka jafnan þátt í bæði heimilisstörfum og barnauppeldi. Vissulega tók líka tíma að breyta hugarfari eiginmannsins sem alinn var upp eins og ég við þessi gömlu hlutverkaskipti. Í dag horfi ég með stolti á að á heimilum barnanna minna er þessi hlutverkaskipting orðin tiltölulega jöfn. Þannig tel ég best að byrja þessa hugarfarsbreytingu inni á heimilunum og í uppeldi barnanna.

Ég tel einnig að með kosningaréttinum höfum við konur tekið á okkur bæði réttindi og skyldur. Við eigum að nýta okkur kosningaréttinn, en líka að taka á okkur þær skyldur sem honum fylgja. Þar á ég við að taka að okkur stjórnunarstörf í ýmsum geirum samfélagsins til jafns við karla. Þá fyrst er jafnrétti komið á þegar talið er sjálfsagt að konur stjórni hvaða fyrirtæki eða félagi sem er, því enn erum við konur að brjóta glerþak í þeim málum. Konur sem fæddar voru á fyrri hluta 20. aldar, höfðu fæstar nægilegt sjálfstraust til að takast á við hefðbundin karlastörf, bæði vegna ríkjandi hefða og uppeldis. Þetta hefur breyst sem betur fer, fleiri og fleiri konur læra t.d. verkfræði sem áður var eingöngu talið karlanám. Ég á t.d. dótturdóttur sem er vélaverkfræðingur og sonardóttur sem er heilbrigðisverkfræðingur. Stúlkur leita sér menntunar og eru jafnvel fleiri í háskólum en piltar.

En launajafnrétti höfum við enn ekki náð og þar virðist við ramman reip að draga. Ég held að við konur eigum að vera kröfuharðari í launabaráttunni. Hver eru rökin fyrir því að greiða hærri laun í fjármálastarfsemi en í hjúkrunar- og umönnunarstörfum? Að mínu mati eru það miklu verðmætari störf sem flokkast sem umönnunar og uppeldis- og kennslustörf, heldur en umsýsla fjármuna. Með kosningaréttinum fengum við vald. Allar konur ættu að nýta sér ksoningarétt sinn í öllum málum sem kosið er um. Að mínu mati er það borgaraleg skylda og verðmæt réttindi sem við eigum öll að nýta.