Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Jóna Hrönn Bolladóttir
Jóna Hrönn Bolladóttir
sóknarprestur í Garðasókn

Gigt er engin fyrirstaða

Ég er svo lánsöm að hafa átt foreldra sem kröfðust þess að ég væri samfélagslega meðvituð. Þegar ég var að barn og unglingur og var að láta skoðanir mínar í ljósi var viðkvæðið oft frá pabba eða mömmu „þú átt eftir að enda á þingi“. Ég man að það var jafn sjálfsagt og að borða morgunmat að fara í fyrsta skipti að kjósa. Ég bjó við þá sérstöku stöðu að foreldrar mínir, sem voru prestshjón í sveit, gáfu ekki upp hvað þau kusu til að lenda ekki í neinni flokkun í prestakallinu. Það eru bæði rök með og á móti slíkri ákvörðun en það varð til þess að það var ómögulegt að veiða nokkuð upp úr þeim og þetta setti á mig þá kröfu að mynda mér sjálfstæða skoðun á hinum ýmsu málum frá því að ég fékk kosningaréttinn. Pólitíska leyndarreglan var algild á mínu heimili nema þegar Vigdís Finnbogadóttir bauð sig fram til forseta, þá gekk faðir minn fram fyrir skjöldu og vann fyrir hana í kosningarbaráttunni og var mjög kappsfullur í verkefninu. Var ósvikinn fögnuður á mínu heimili þegar hún náði kjöri.  

Ég hef miklar áhyggjur af minnkandi kosningaþátttöku í landinu okkar og ég held að við verðum að taka höndum saman við að vekja landsmenn til vitundar um mikilvægi þess að nýta kosningaréttinn, það er samfélagslegt hnignunarmerki að fólk láti sig ekki varða hvaða fólk er kosið til ábyrgðar því ekki vantar þátttökuna í ýmis konar símakosningu í söng-og hæfileikakeppnum. Þetta er verkefni 21. aldar eins og það var verkefni 20. aldarinnar að tryggja konum og eignalausum körlum þann sjálfsagða rétt að mega kjósa. Við sem erum foreldrar eigum að setja það á forgangslistann að hvetja börn og barnabörn til að fara á kjörstað og ef engin er í framboði sem þeim líkar eða málefnalistinn hugnast þeim ekki skulu þau fara samt og skila auðu því þannig er afstaða tekin. Það er slæmt fyrir þjóðfélag ef fólk upplifir sig sem samfélagspeð og engu skipti að nota atkvæði sitt.  Þá er eitthvað að gerast sem smættar fólk og eykur vanmátt þess.

Samfélagið þarf að iðka réttlæti. Réttlæti er iðkun. Konur og eignalausir karlar fengu kosningarétt á Íslandi vegna þess að réttlætið var iðkað. Þar megum við aldrei slá af. Jafnréttisbaráttan er iðkun réttlætis og ég er endalaust þakklát þeim konum og körlum sem hafa verið í fararbroddi í þeirri sístæðu baráttu og skapað mér velferð. Mér finnst alltaf jafn dýrmætt að sjá hana mömmu mína klæða sig upp á, setja á sig varalitinn og halda pólitískar ræður í bílnum á leið á kjörstað, því nú er hún orðin svo öldruð að henni leyfist að eigin mati að gefa allt upp í þessum efnum. Einu gildir um gigtveiki og heilsuleysi, aldrei myndi hún sleppa því að kjósa. Við verðum að vera góðar fyrirmyndir fyrir komandi kynslóðir svo lýðræðið skaðist ekki heldur varðveitist og dýpki og dafni.